Rannís er um þessar mundir að afla gagna um rannsókna- og þróunarstarf hjá fyrirtækjum á Íslandi. Þetta er liður í þeirri starfsemi stofnunarinnar að greina stöðu, umfang og þróun rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi.

Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtækin til að taka vel í málaleitan Rannís og láta þeim í té umbeðnar upplýsingar. Rannís hefur aflað gagna af þessu taki frá 1970 en til eru í vörslu Rannís enn eldri gögn um þessi mál. Það er forsenda allrar stefnumótunar og þróunar í landsmálum að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um stöðu mála. Það er einmitt markmið Rannís að vinna að því, til gagns fyrir atvinnulíf í landinu og stjórnvöld að hægt sé að byggja upp sem best umhverfi rannsókna og þróunar segir í frétt á heimasíðu SA.

Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) er stofnun sem heyrir undir menntamálaráðuneytið og veitir íslensku vísinda- og tæknisamfélagi aðstoð til framþróunar á innlendum og erlendum vettvangi, er samstarfsvettvangur til undirbúnings og framkvæmdar opinberrar vísinda- og tæknistefnu og gerir áhrif rannsókna á þjóðarhag og hagvöxt sýnilegan.