Lögreglusamstarf ESB-ríkja, skráning og miðlun persónuupplýsingar um flugfarþega og framsal sakamanna var á meðal umræðuefna Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Franco Frattini, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem fer með dóms- og innanríkismál, á fundi í Brussel í gær.

Á fundinum voru rædd sameiginleg verkefni, sem leiða af Schengen-aðild Íslands og snerta samstarf á sviði öryggis- og lögreglumála.

Björn og Frattini ræddu m.a. um skráningu og miðlun persónuupplýsinga flugfarþega bæði innan Schengen-svæðisins og einnig gagnvart Bandaríkjunum. Var niðurstaða fundarins sú, að sem mest samstarf og samhæfing yrði milli Íslands og Evrópusambandsins á þessu sviði, enda væri eftirlit af þessu tagi ein öflugasta leiðin til að sporna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Framsal fanga til heimalands verði auðveldað

Þá gerði Björn Frattini m.a. grein fyrir því, að ríkisstjórnin hefði samþykkt, að hann ræddi um þátttöku í lögreglusamstarfi ESB-ríkjanna, sem byggist á svonefndu Prüm-samkomulagi. Munu embættismenn Íslands og ESB vinna að úrlausn málsins með það fyrir augum, að tengslin verði samningsbundin.

Á fundinum var einnig ákveðið, að Ísland skyldi tengjast, eftir því sem unnt yrði, nýjum reglum, sem eru í mótun innan Evrópusambandsins, um framsal dæmdra manna á milli ríkja. Reglurnar miða að því að auðvelda slíkt framsal með það að markmiði, að fangar taki út refsingu í heimalandi sínu.