Tveir fyrrverandi starfsmenn embættis sérstaks saksóknara segjast hafa upplýst meðlimi slitastjórnar Glitnis um innihald samtala þeirra, sem stefnt var í Glitnismálinu svokallaða fyrir dómstólum í New York, og lögmanna þeirra. Þetta hafi þeir gert að skipan saksóknara hjá sérstökum saksóknara. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu .

Starfsmennirnir tveir halda þessu fram í greinargerð sem þeir skiluðu til Ríkissaksóknara þegar þeir voru til rannsóknar þar vegna meintra brota á þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumenn hjá sérstökum saksóknara. Málið gegn þeim var síðar látið niður falla.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vísar þessum ásökunum fyrrverandi starfsmanna sinna á bug. Í samtali við Fréttablaðið kannaðist Ólafur ekki við að hafa heyrt neitt af þessum ásökunum. Þá sagðist hann ekki kannast við að ríkissaksóknari hefði tekið þetta mál til rannsóknar eða yfirhöfuð talið tilefni til viðbragða við ásökununum. Að öðru leyti sagðist Ólafur ekki getað tjáð sig um málið þar sem það væri fyrir dómstólum.