Vegna deilna Magnúsar Scheving, stofnanda Latabæjar, við Arion banka var ekki hægt að ganga frá nauðasamningi á framhaldsaðalfundi Latabæjar á mánudaginn.

Aðalfundurinn átti fyrst að fara fram á þriðjudaginn í síðustu viku. Hann kláraðist hins vegar ekki þá og var boðað til framhaldsaðalfundar á mánudaginn. Þegar sá fundur rann út í sandinn þurfti að halda annan fund í gær.

Viðskiptablaðið fékk ekki upplýsingar hvort það tókst að ljúka nauðasamningum áður en blaðið fór í prentun. Deila Magnúsar við Arion snýr ekki beint að rekstri Latabæjar heldur uppgjöri á félagi í eigu hans og konu hans, Ragnheiðar Melsted.

Félagið heitir Fimur ehf. og skuldar samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009 tæplega 200 milljónir króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stofnaði Magnús til þeirrar skuldar þegar Latibær var í fjárþurrð og það vantaði pening inn í reksturinn.

Talið er að uppgjör milli Magnúsar og Arion banka tengist þessu félagi samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Magnús var ekki tilbúinn að klára endurskipulagningu Latabæjar á mánudaginn fyrr en mál hans og Arion væru frágengin.

-Nánar í Viðskiptablaðinu