Kostnaður skattborgara í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna sameiningar Álftaness og Garðabæjar nemur 1.214 milljónum króna, að því er kemur fram í greinargerð sem unnin var vegna sameiningarinnar.

Viðskiptablaðið greindi frá þessu í lok september sl. Eins og áður hefur komið fram var sameining sveitafélaganna samþykkt í íbúakosningu í gær. Stór meirihluti Álfnesinga, eða um 88%, kaus með sameiningu en meirihlutinn var þó nokkuð tæpari í Garðabæ þar sem um 53% samþykktu sameiningu en 47% voru á móti.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðsins til Álftaness mun nema 449 milljónum á árunum 2011 til 2013, framlag vegna skuldaerfiðleika mun nema 285 milljónum í ár, skuldajöfnunarframlag mun nema 450 milljónum á árunum 2012 til 2015 og framlög til endurskipulagningar á stjórnsýslu og þjónustu mun nema 30 milljónum.Við þetta bætast svo um níu milljónir frá sjóðnum til undirbúnings sameiningarinnar.

Stór hluti þessara aukaframlaga frá Jöfnunarsjóðnum er háður því að sameining Álftaness og Garðabæjar gangi eftir. Með öðrum orðum hangir fjárhagsleg endurskipulagning Álftaness á því að af sameiningunni verði.

Samkomulag Álftanesbæjar við lánadrottna sína felur í sér að þeir gefi eftir 32% af kröfum sínum. Í greinargerð R3-Ráðgjafar ehf. um sameiningu Álftaness og Garðabæjar kemur fram að eftirgjöf lána frá Arion banka og lífeyrissjóðum nemi alls 291 milljón króna. Stærsti lánadrottinn sveitarfélagsins er Lánasjóður sveitarfélaga, sem tekur ekki á sig neina eftirgjöf á kröfum, sem stóðu í 1.714 milljónum króna. Reyndar segir í greinargerðinni að hluta af framlögum Jöfnunarsjóðsins verði ráðstafað til niðurgreiðslu á láni frá Lánasjóðnum að fjárhæð 94 milljónir. Þetta fé fer með öðrum orðum úr einum vasa hins opinbera í annan.

Þá er hluti af þessu samkomulagi úrlausn á málum eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. Leiguskuldbinding bæjarins vegna félagsins nam 2,2 milljörðum í lok árs 2011, en úr varð að Álftanes leysir til sín félagið fyrir 1,35 milljarða og greiði 204 milljónir vegna vangreiddrar leigu. Kaupin verða fjármögnuð með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga og með framlögum úr Jöfnunarsjóðnum.

Snorri Finnlaugsson, bæjarstjóri Álftaness, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í lok september að í endurskipulagningarvinnunni hafi það verið haft að leiðarljósi að koma skuldum bæjarins undir 250% af tekjum. Miðað sé við þetta hlutfall þegar kemur að því að meta hvort og með hvaða hætti ríkið grípur inn í rekstur viðkomandi sveitarfélags. Snorri sagði þá að þetta hafi verið haft sem viðmið og niðurstaðan hafi því verið sú að þessir lánadrottnar tóku á sig 32% skerðingu. Hann sagði að það væri vissulega sjónarmið að lánadrottnar hefðu átt að taka á sig meiri skerðingu í ljósi þess að endurskipulagningin kemur til með að kosta Jöfnunarsjóðinn um 1.200 milljónir.