*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 30. janúar 2020 07:49

Upprisa Kosts sem netverslunar

Sonur stofnanda verslunarinnar Kostur sem fór í gjaldþrot fyrir þremur árum rekur nú netverslun undir sama merki.

Höskuldur Marselíusarson
Frá opnun verslunar Kosts á Dalvegi árið 2010, en verslunarrekstri félagsins lauk í árslok 2017, en vörumerkið hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga sem netverslun.
Aðsend mynd

„Bara það besta, bara amerískt! Frí heimsending á pöntunum yfir 9.998 kr!“ stendur stórum stöfum efst á nýrri heimasíðu netverslunarinnar Kostur.is, sem Tómas Gerald Sullenberger, þrítugur sonur Jóns Gerald Sullenberger hefur opnað á netinu.

Verslunin er undir vörumerki hins gamla félags Jóns Geralds, Kostur, sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma, fór í gjaldþrot í febrúar 2018 eftir að samnefndri verslun var lokað í desember árið 2017.

Fyrir gjaldþrotið skipti félagið um nafn, en fyrirtækið Smartco, sem skilað hefur ársreikningum í tíu ár, rekur nýju vefverslunina sem jafnframt hefur tekið yfir facebook síðu félagsins.

Facebook síðan var uppfærð 24. janúar síðastliðinn, en á síðum félagsins er töluvert framboð af vörum sem viðskiptavinir Kosts ættu að þekkja, eins og bandarískt morgunkorn, sælgæti og snakk, tyggigúmmí og hreinlætisvörur.