*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Erlent 16. júlí 2017 17:45

Upprisa og fall Brasilíu

Ástandið í Brasilíu er bagalegt. Lula fyrrverandi forseti hefur verið kærður fyrir spillingu, og Dilma Rousseff, eftirfari hans, var kærð fyrir embættisbrot og núverandi forseti hefur verið ásakaður um yfirhylmingu.

Pétur Gunnarsson
Ein frægasta táknmynd Brasilíu er risavaxin stytta af Jesú Kristi sem gnæfir yfir Ríó.
epa

Árið er 2009 og hinn ástsæli forseti Brasilíu, Luiz Inacio Lula da Silva, segir stærsta olíufund Brasilíu „vegabréf Brasilíu til framtíðarinnar.“ Í kjölfarið halda Brasilíumenn bæði HM 2014 og Ólympíuleikana árið 2016, allt virðist ganga eins og í sögu hjá þessu stærsta ríki Suður-Ameríku, eða hvað? Í áhugaverðri samantekt Bloomberg Quicktake á upprisi og falli Brasilíu á síðustu árum er farið í saumana á því hvernig svo mikil spilling getur grasserað innan pólitísku- & viðskiptaelítunnar í ríkinu og þau neikvæðu áhrif það getur haft. Nýjustu fregnir í Brasilíu eru þær að fyrrverandi forseti ríkisins, sem er best þekktur sem Lula, hafi verið dæmdur í nálega 10 ára fangelsi vegna spillingar. Í fyrra var Dilma Rousseff, fyrrverandi forseti ríkisins, ákærð fyrir embættisbrot og í kjölfarið tók varaforsetinn Michel Temer við af henni. Hann þarf nú að svara fyrir spillingaásakanir sjálfur. 

Staðan

Gjaldmiðill Brasilíu, hlutabréf og skuldabréf hríðféllu í maí á þessu ári í kjölfar þess að fjölmiðillinn O Globo, birti fregnir af því að Michel Temer, forseti landsins, hafi tekið þátt í að þagga niður í vitni í spillingarskandal. Temer hefur neitað sök í málinu og mun ekki segja af sér. Í júní 2017 var hann sýknaður af ákæru um spillingu, þó í öðru máli en því sem var minnst á hér að ofan. Stóra verkefnið hjá forsetanum er að draga úr eyðslu í Brasilíu og koma ríkisfjármálunum á réttan kjöl, sem gæti reynst þrautinni þyngra.

Bakgrunnur

Brasilía hefur þurfta að glíma við uppgang og kreppur í bland við pólitískan óstöðugleika síðan landið öðlaðist sjálfstæði frá Portúgal árið 1822. Árið 2015 var helmingur útflutnings Brasilíu hrávörur. Því er ríkið mjög viðkvæmt fyrir breytilegu hrávöruverði. Staðan virðist góð í landinu á pappír: Brasilía er fimmta stærsta ríki heims þegar kemur að fólksfjölda og stærð. Brasilía á flenninóg af olíu, er ríkt af járni, og er annar stærsti framleiðandi af sojabaunum í heiminum. Í fyrra dróst hagkerfi ríkisins saman um 3,6% og þýðir það að hagkerfið er 8% minna en það var í desember 2014. Aftur á móti er mikil misskipting auðs í ríkinu. Þegar gekk vel í efnahagslífinu þá gat ríkið lagt traustar undirstöður af velferðarkerfi, en nú þegar kreppir að, fer velferðarkerfið fyrir bí. Helsta von Brasilíu er að auka fjárfestingu í landinu, en ekki hefur það gengið hingað til. 

Getur Brasilía rétt úr kútnum?

Þá er það stóra spurningin sem Bloomberg veltir upp. Getur Temer, forseti Brasilíu, endurreist brasilískt efnahagslíf á nýjan leik? Fyrsta skrefið í áætlun Temer var að breyta stjórnarskránni til að draga úr eyðslu ríkisins, næstu tuttugu árin. Næst vill hann laga velferðarkerfið sem að hruni komið og ýta undir viðskiptavænna umhverfi í ríkinu með því að afregluvæða vinnumarkaðinn. Aftur á móti hafa nýjustu ásakanirnar á hendur forsetanum, sem minnst var á hér að ofan, gert það að verkum að hann á í sífelld erfiðara með að afgreiða kosningaloforð sín. Næstu forsetakosningar verða í Brasilíu á næsta ári. Einungis 10 prósent almennings styðja ríkisstjórn Termers og jafn margir styðja þingið. Staðan er í raun svo slæm að Lula, fyrrverandi forseti landsins og fyrrverandi formaður Verkamannaflokksins í Brasilíu, vill bjóða sig fram til forseta. Brasilíska þjóðin er klofin og byggist klofningurinn á því hvort að fólk styðji Lula, sem var dæmdur í 9 og hálfs árs fangelsi eða ekki.  

Stikkorð: Brasilía efnahagur greining