Uppsagnarbréf berast þessa dagana til þeirra tíu starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sem sagt verður upp til að mæta hagræðingarkröfum ríkisins. Björn Þorsteinsson, rektor skólans, sagði frá þessu í samtali við Skessuhorn í gær. Uppsagnirnar taka gildi um mánaðamótin og þá verður haldinn starfsmannafundur og greint frá breytingum sem verða vegna uppsagnanna. Ekki verður gefið upp hverjir hafa misst vinnuna fyrr en þá.

Björn segir að því starfsfólki sem missir vinnuna verði boðnir tveir tímar hjá sálfræðingi. Stjórnendur skólans meta hagræðingarkröfu stjórnvalda vera 61 milljón króna þegar tekið er tillit til niðurskurðar framlags frá menntamálaráðuneytinu annars vegar og atvinnuvegaráðuneytinu hins vegar. Að auki þarf skólinn að borga 35 milljóna króna skuld við ríkissjóð.