Hátt í tólf hundruð manns misstu vinnu sína í fjármálageiranum á síðasta ári, að sögn Friðberts Traustasonar, formanns Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þar af misstu flestir vinnuna í kjölfar bankahrunsins í október.

Hann segir að uppsagnarfresturinn hafi verið þrír til sex mánuðir. Fáir í hópnum séu því komnir á atvinnuleysisskrá. Á því kunni hins vegar að verða breyting um næstu mánaðamót þegar uppsagnarfrestur stórs hóps rennur út.

Friðbert tekur þó fram, aðspurður, að það hafi gengið vel fyrir ákveðna hópa að fá vinnu aftur.

„Það virðist til dæmis hafa verið vænlegt fyrir stærfræðinga, verkfræðinga og tölvunarfræðinga að fá vinnu," segir hann og bendir á að mikil eftirspurn hafi verið eftir slíkum sérfræðingum á undanförnum árum.

„Sá markaður virðist hafa verið sveltur," segir hann.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .