Talsmenn bankanna segja að uppsagnir skuldabréfa bankanna á Bandaríkjamarkaði muni ekki hafa víðtæk áhrif á endurfjármögnunarþörf bankanna né vaxtarmöguleika til lengri tíma þar sem búið var að gera ráð fyrir uppsögnunum í áætlunum bankanna.

Uppsagnirnar hafa haft mikil áhrif á gengi bréfa bankanna í Kauphöllinni en úrvalsvísitalan hefur lækkað um 4% í dag. Kaupþing banki um 6,3%, Landsbankinn um 4,6% og Glitnir um 2,9%.

Fjárfestar í Bandaríkjunum hafa ákveðið að framlengja ekki hluta af svokölluðum framlengjanlegum skuldabréfum íslensku bankanna. Ástæðan er hækkandi ávöxtunarkrafa á eftirmarkaði sem rýrir verðgildi bréfanna. Ávöxtunarkrafan hefur farið hækkandi á skuldabréfum allra bankanna í kjölfar mikillar neikvæðrar umræðu um þá og íslenskt efnahagslíf undanfarna mánuði.

Ingvar H. Ragnarsson forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ákvörðun fjárfestanna um að framlengja ekki kæmu ekki neinum á óvart og að fullyrðingar þess efnis að þetta muni hafa vítæk áhrif á endurfjármögnunarþörf bankanna séu orðum auknar.

Ingvar segir að þar sem skuldabréfin séu eingöngu til 13 mánaða í senn, þrátt fyrir að vera inn í 5 ára rammasamningi, þá gerir bankinn eingöngu ráð fyrir styttra tímabilinu í áætlunum sínum. Fjárfestarnir sem kaupa bréfin taka ákvörðun mánaðarlega um næsta 13 mánaða tímabil. Ingvar segir jafnframt að í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á eftirmarkaði skuldabréfa undanfarið þá hafi bankinn fastlega búist við þessu og þar af leiðandi breyti þetta engu um endurfjármögnun bankans.

Ingvar telur einnig að það sé ofsögum sagt að túlka ákvörðun fjárfestanna um að framlengja ekki bréfin sem svo að þeir séu með aðgerðum sínum að lýsa yfir vantrausti á bankana. Fjárfestarnir sem um er að ræða eru skammtímasjóðir sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sveiflum á eftirmarkaði og þegar verðþróunin er óhagstæð eins og hún hefur verið undanfarið þá skilar það strax neikvæðri ávöxtun sem kallar á viðbrögð af þessu tagi. Um er að ræða eðlileg markaðsviðbrögð. Verðþróunin er þó tilkomin vegna umræðunnar sem hefur átt sér stað undanfarið.

Að lokum ítrekar Ingvar að uppsögnin hafi ekki áhrif á endurfjármögnunarþörf Glitnis þar sem að í öllum áætlunum bankans sé á hverjum tíma gert ráð fyrir að þessi bréf séu á gjalddaga á næsta ári. Því sé ekki ástæða til að líta öðrum augum á þessi bréf en hver önnur sem koma á gjalddaga á ákveðnum tímapunkti.

Guðni Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Fjárstýringar Kaupþingsbanka sagði í samtali við Viðskiptablaðið að uppsögn skuldabréfanna í Bandaríkunum myndi í raun ekki hafa það víðtæk áhrif þar sem einungis væri um að ræða 600 milljónir bankinn þarf að fjármagna að auki á næsta ári í kjölfar þessara uppsagna nú. Til samanburðar við til dæmis sambankalánið sem KB banki fékk á Evrópumarkaði í síðustu viku að andvirði 500 milljónir evra væri þetta því ekki svo stór upphæð.

Guðni sagði að uppsagnirnar myndu ekki takmarka getu bankans til að sækja sér fjármagn á markiðinn nú þar sem að þetta séu í raun viðbrögð peningamarkaðsjóða í Bandaríkjunum sem orsakast af sveiflum á eftirmarkaði en ekki vantraustsyfirlýsingu á bankann. Þegar þessi skuldabréf voru gefin út þá var alltaf sá möguleiki fyrir hendi að þeim yrði sagt upp. Bankinn hafi því alltaf gert ráð fyrir þessari stöðu í áætlunum sínum enda er staðan á markaðinum þannig í dag að það eru miklar sveiflur í gangi og miklar hreyfingar.

Guðni sagði að uppsagnirnar á skuldabréfum bankans yrðu ekki túlkaðar á þann veg að bankarnir væru að missa traust á Bandaríkjamarkaði enda hafi það komið skýrt fram í samtölum við fjárfesta að þetta hafi ekkert að gera með stöðu eða gæði bankans.

Að lokum sagði Guðni að Kaupþing banki hafi ekki haft uppi áform þess efnis að sækja að auknu mæli inn á skammtíma skuldabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum á þessu ári og því breytir þetta ekki áformum bankans í sambandi við innkomu á Bandaríkjamarkað. Skammtínma peningamarkaðurinn er mjög sérstakur og lýtur sérstökum lögmálum og þessi þróun kemur okkur ekki á alveg á óvart.