*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 7. maí 2020 08:28

Uppsagnir blasa við

Tæplega 40% stjórnenda iðnfyrirtækja gera ráð fyrir að fækka starfsfólki sem er mikið áhyggjuefni að mati Ingólfs Bender.

Trausti Hafliðason

Mikið hefur verið rætt um neikvæð áhrif heimsfaraldursins á ferðaþjónustu og  þjónustugreinar henni tengdar en ljóst er að áhrifin teygja sig víðar. Mikill meirihluti stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja telur til að mynda að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi neikvæð áhrif rekstur síns fyrirtækis. Um 68% telja að faraldurinn hafi mjög eða nokkuð mikil neikvæð áhrif en 21% telja að áhrifin verði nokkuð eða mjög lítil. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Outcome kannanir gerðu fyrir Samtök iðnaðarins á tímabilinu 14. til 26. apríl.

Í könnuninni kemur fram að tæplega 60% stjórnenda gerir ráð fyrir tekjusamdrætti á 2. og 3. ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Á bilinu 11 til 15% telja hins vegar að tekjurnar muni aukast á þessum ársfjórðungum á milli ára og um 22% að tekjurnar muni standa í stað. Stjórnendur eru örlítið bjartsýnni þegar horft er á 4. ársfjórðung en um 53% gera ráð fyrir tekjusamdrætti á honum á milli ára, um 15% telja að tekjur muni aukast og 27% að tekjurnar muni standa í stað.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að þessar niðurstöðu komi ekki á óvart.

„Við höfum séð það í hagtölum, til að mynda vinnumarkaðstölum, að það er mjög hratt vaxandi atvinnuleysi innan greinarinnar," segir Ingólfur.  „Það er um það bil einn af hverjum fimm á atvinnuleysis- eða hlutabótum, sem er umtalsverður fjöldi því innan greinarinnar starfa um 43 þúsund manns. Því miður nær þetta ástand heilt yfir iðngreinarnar. Við sjáum samdrátt í byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði og hugverkaiðnaði.

Framleiðsluiðnaðurinn er tvískiptur. Annars vegar er framleiðsla fyrir innlendan markað þar sem fyrirtækin hafa verið að takast á við samdrátt í bæði neyslu og fjárfestingu. Hins vegar eru það útflutningsfyrirtækin, sem hafa líka átt mjög erfitt uppdráttar og það þrátt fyrir að raungengi krónunnar hafi lækkað og samkeppnisstaðan gagnvart erlendum aðilum batnað. Erfiðleikarnir helgast fyrst og síðast af gríðarlega kröftugum samdrætti í eftirspurn, bæði hér innanlands og erlendis."

Ingólfur segir að það séu kannski helst matvælafyrirtækin sem hafi náð að halda dampi í gegnum erfiðleikana.

„Það eru samt ekki ýkja mörg fyrirtæki sem standa fyrir hverjum vöruflokki. Sum þeirra hafa verið að auka framleiðsluna en önnur að draga saman. Þetta ástand sýnir hversu mikilvægt það er að vera með þessa starfsemi í landinu."

Uppsagnir í farvatninu

Ljóst er að iðnfyrirtækin hyggjast mæta samdrættinum með hagræðingu í rekstri. Í könnunni var sérstaklega spurt út í starfsmannahald og hvernig horfir með fjölda starfsmanna. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Ríflega 37% stjórnenda hyggjast fækka starfsfólki á næstu tólf mánuðum. Um 47% ætla að halda í horfinu en um 14% reikna með að fjölga starfsfólki. Voru niðurstöðurnar svipaðar þegar spurt var út í þróun starfsmannafjölda eftir ársfjórðungum sem bendir til þess að stjórnendur iðnfyrirtækja sjá ekki fyrir sér snarpan viðsnúning í rekstrinum á næstu tólf mánuðum.

„Þetta myndi ég segja að væri stærsta áhyggjuefnið í augnablikinu,“ segir Ingólfur. „Í það heila eru um 55 þúsund Íslendingar á atvinnuleysis- eða hlutabótum í dag. Þessi niðurstaða gefur vísbendingar um að ástandið sé ekki mikið að batna. Ég myndi segja að á sviði hagstjórnar væri þetta langstærsta verkefnið framundan. Við höfum verið að grípa fólkið sem misst hefur vinnuna og greiða því bætur og næsta skref er að finna lausn á því hvernig við getum fjölgað störfum. Fókusinn hlýtur því núna að vera færast í viðspyrnuna — við þurfum að koma þessu fólki í vinnu aftur. Það versta sem getur gerst er að missa það í langtímaatvinnuleysi."

Mesta svartsýnin í sex ár

Þær niðurstöður sem hér hefur greint frá endurspegla aðstæður í íslensku efnahagslífi í dag og framtíðarhorfur. Voru stjórnendurnir spurðir hvernig þeir mætu aðstæðurnar fyrir þeirra fyrirtæki en spurt hefur verið að þessu árlega frá 2014. Í stuttu máli þá hafa stjórnendur ekki verið svartsýnni í sex ár. Nú telja um 52% þeirra að aðstæður sé sæmar fyrir þeirra fyrirtæki. Um 24% telja þær góðar og sama hlutfall, 24%, svöruðu því til að þær væru hvorki góðar né slæmar. Þegar bjartsýnin var sem mest, árið 2017, töldu 65% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar fyrir þeirra fyrirtæki en tæplega 12% að þær væru slæmar. Heimsfaraldurinn og efnahagsþrengingarnar sem honum hafa fylgt hefur augljóslega mikil áhrif á iðnfyrirtækin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.