Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP  sem rekur meðal annars bílaleigurnar Avis og Budget, segist sjá fram á áþekkan samdrátt í bókun bílaleigubíla og birtist í farþegaspá Isavia. „Þetta verður krefjandi ár. Það versta er að mesta fækkunin er yfir veturinn og axlirnar (haustog vormánuði) sem er ekki gott. Á sama tíma er ríkið búið að fella niður afslátt af vörugjöldum og er að setja á okkur aðrar kvaðir sem eru rekstrinum ekki til góðs,“ segir Hjálmar.

Hann segir útlit fyrir að starfsfólki muni fækka hjá bílaleigum. „Það eru allir að taka til í rekstrinum og verið að segja upp fólki. Það er ekki búið að samþykkja ráðningar fyrir sumarið,“ segir Hjálmar. „Við erum búin hagræða helling. Við sjáum fram á að ekki verði næstum því eins mikið ráðið inn í sumar og verið hefur,“ segir Hjálmar.

Starfsmönnum hjá bílaleigum ALP hafi fækkað um 20 miðað við fyrir ári og séu um 130 nú. Hjálmar segir að það stefni í að fjárfesting í nýjum bílaleigubílum dragist saman um 80% hjá ALP miðað við árið 2017 sem var metár í fjárfestingum á bílaleigubílum. „Ég held að ég geti fullyrt fyrir greinina að nýfjárfesting á eftir að verða í sögulegu lágmarki sem þýðir að bílaflotinn eldist með tilheyrandi áhrifum á mengun og umferðaröryggi,“ segir Hjálmar.

„Reksturinn hefur ekki gengið vel síðustu tvö ár með sterku gengi og hækkandi launum. Menn geta líka sagt að þetta sé bara gott. Það var offjárfesting í greininni og bílaleigubílar voru orðnir of margir. Það er eðli samkeppninnar að grisja út,“ segir Hjálmar. Þá séu margir áhyggjufullir vegna yfirstandandi kjaraviðræðna og hvaða áhrif nýir kjarasamningar geti haft.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .