Fimm manns hefur verið sagt upp hjá ríkisstofnuninni Íslenskum orkurannsóknum og um tveir þriðju starfsmanna tóku á sig skerðingu sem er hjá flestum á bilinu 10-25% að því er Vísir greinir frá.

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, segir í samtali við Vísi, ástæðuna vera samdráttur á markaði vegna minnkandi umsvifa  íslenskra orkufyrirtækja. Rekstarvandi hafi lengi blasað við ÍSOR. Árni tók við sem forstjóri ÍSOR 1. júní á síðasta ári en hann er fyrrverandi félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.

Félagið hafi gripið til fleiri hagræðingaraðgerða á borð við að draga úr húsnæðiskostnaði ásamt öðrum skipulags- og hagræðingaraðgerðum auk þess að reynt hefur verið að afla aukinna verkefna. Þó félagið sé í ríkiseigu aflar það tekjum með sölu á þjónustu.

Vonast er til að umsvif félagsins aukist á ný á næsta ári.