Breski bankinn Lloyds Banking Group, sem er 9% í eigu breska ríkisins, hefur sagt upp 1.340 einstaklingum en bætir við 110 nýjum störfum á sama tíma. Alls hefur 1.230 einstaklingum því verið sagt upp.

Uppsagnirnar eru liður í niðurskurði bankans sem tilkynntur var í október árið 2014, en hann nær aðallega til viðskiptabankastarfseminnar, útibúanna, vöruþróunar og markaðssetningar. Áætlað er að allt að 9.000 manns verði sagt upp í því ferli.

Niðurskurðurinn á að lækka kostnað, bæta arðsemi eiginfjár bankans og auðvelda nútímavæðingu rekstrarins, en niðurskurðinn má að miklu leyti rekja til aukinnar eftirspurnar eftir netbankaþjónustu.

Hópuppsagnir í stærstu bönkum Evrópu og Bandaríkjanna hafa verið tíðar allt frá 2015, en þá voru um 140 þúsund störf felld niður hjá bönkunum. Má þar nefna Deutsche Bank, ING og Commerzbank. Uppsagnir hafa einnig átt sér stað á íslenskum bankamarkaði, en Arion banki sagði upp 46 starfsmönnum í lok september síðastliðinn.