Ölgerðin hefur sagt upp rúmlega 30 starfsmönnum frá og með þeim mánaðamótum sem nú ganga í garð.

Í tilkynningu frá þeim segir að auk almennra efnahagsþrenginga takist íslensk iðnfyrirtæki nú á við auknar skattaálögur sem þýða verulegan samdrátt á markaði. Þar að auki glíma mörg þeirra nú jafnframt við hærri vörugjöld og virðisaukaskatt. Þegar ítrekað er höggvið í sama knérunn getur Ölgerðin  því miður ekki umflúið breytingar til að mæta þeirri stöðu og neyðist til að segja upp mörgu góðu starfsfólki, sumu hverju með áratuga starfsaldur hjá fyrirtækinu.

Síðasta rekstrarár, frá mars 2008 til mars 2009, var það besta í sögu Ölgerðarinnar. Uppsagnirnar nú eru því hvorki afleiðing af rekstrarvanda eða fjárfestingum í fortíðinni segir í tilkynningunni. Fyrirtækið flutti nýlega alla starfsemi sína í nýtt húsnæði að Grjóthálsi.  Starfsemin var áður á 8 stöðum í Reykjavík ýmist í eigu fyrirtækisins eða leiguhúsnæði.  Nýja húsnæðið mun skila hagræðingu þegar á næsta ári.

„Í þessu efnahagsumhverfi verða öll fyrirtæki að sýna aðhald í rekstri og við kvörtum ekki undan því að axla byrðar eins og aðrir. Starfsfólk Ölgerðarinnar hefur unnið gríðarlega góða vinnu og rekstrarárangurinn verið góður.  En það eru kaldar kveðjur til þessara starfsmanna þegar stjórnmálamenn grípa ítrekað til aðgerða sem gera rekstrarforsendur íslenskra framleiðslufyrirtækja verri," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar í tilkynningu.

„Þegar saman fara skattahækkanir, hærri vörugjöld og hærri virðisaukaskattur þá dregst okkar markaður verulega saman og uppsagnir verða því miður óhjákvæmilegar. Þar að auki er hróplegt ósamræmi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem endurspeglast til dæmis í því að menn kjósa að kalla kókómjólk og kókópöffs undirstöðumatvæli, en hreinan ávaxtasafa og kolsýrt vatn sætindi. Á slíkum forsendum mismuna þeir iðngreinum og þannig er samkeppnisstaða á markaði skekkt af hreinum geðþótta.  Fyrir það munu margir okkar starfsmenn þurfa að gjalda, því miður."

Þá kemur fram að Ölgerðin hyggst grípa til fleiri nauðsynlegra aðgerða til að hagræða í rekstri. Til að minnka þörf á frekari uppsögnum eru þeir starfsmenn sem eru með hærri laun en 350 þúsund á mánuði beðnir um að afsala sér 3,5% hækkun sem stendur til samkvæmt kjarasamningum. Hluti starfsmanna verður beðinn um að samþykkja minna starfshlutfall og fleiri leiða verður leitað til að mæta þessum þrengingum á markaði. Um 276 manns störfuðu hjá Ölgerðinni fyrir þessar uppsagnir.