Stöðugildum hjá Skeljungi mun fækka um 20 með skipulagsbreytingum hjá félaginu sem kynntar voru í morgun. „Markmið skipulagsbreytinganna er að einfalda starfsemina, stytta boðleiðir og hagræða í rekstri. Auk þess er verið að bregðast við því rekstrarumhverfi sem félagið býr við,“ segir í tilkynningu frá Skeljungi.

Áætlaður kostnaður við breytingarnar er um 100 milljónir króna sem verða gjaldfærðar á fyrsta fjórðungi ársins.

Ekki verður gerð breyting á framkvæmdastjórn félagsins en verkefni færast á milli sviða samkvæmt tilkynningu frá Skeljungi.

Í tilkynningunni segir að breytingin hafi verið samkvæmt tillögu Árna Péturs Jónssonar, forstjóra félagsins, og hafi verið samþykkt af stjórninni.

Fjárfestingafélagið Strengur eignaðist meirihluta í Skeljungi í byrjun ársins og hefur boðað miklar breytingar á rekstrinum. Skeljungur standi á tímamótum vegna orkuskipta. Strengshópurinn vill að eignir verði seldar og söluandvirði verði greitt til hluthafa, meðal annars til að greiða lán sem tekin voru til að fjármagna kaup Strengshópsins á hlutum í Skeljungi.

Verkaskipting framkvæmdastjórnar eftir breytingarnar verður:

  • Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, mun taka við dreifingu eldsneytis, sem áður tilheyrði rekstrarsviði, ásamt því að sinna áfram sölu til fyrirtækja í sjávarútvegi, flugi og landi, ásamt vörusölu og þjónustuveri.
  • Már Erlingsson verður framkvæmdastjóri innkaupa og birgðahalds í stað framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.
  • Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, mun taka við verkefnum framkvæmdadeildar, ásamt því að sinna áfram þjónustustöðvum Orkunnar, Kvikk, 10-11 og Extra.
  • Gróa Björg Baldvinsdóttir, sem áður leiddi lögfræðisvið ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn, mun verða framkvæmdastjóri stjórnarhátta og gæðamála. Mannauður og menning, gæða- öryggis- og umhverfismál sem áður tilheyrðu fjármálasviði færast til Gróu, sem og stjórnarhættir og stefna.
  • Ólafur Þór Jóhannesson mun áfram leiða fjármálasvið en undir því sviði tilheyra móttaka, reikningshald og upplýsingatækni. Auk þess mun Ólafur Þór gegna stöðu staðgengils forstjóra en áður gegndi Már Erlingsson þeirri stöðu.