Alls hefur fimm starfsmönnum Hrafnistu í Reykjavík verið sagt upp störfum. Það var gert fyrir helgi og er ástæðan sú að ríkið hefur ákveðið að endurnýja ekki samning um rekstur endurhæfingarrýma. Slík rými eru ætluð öldruðum sem enn búa í eigin húsnæði. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Frá árinu 2009 hefur verið í gildi samningur um rekstur 20 endurhæfingarrýma. Samningurinn rennur út í vor og verður ekki endurnýjaður.

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir í samtali við RÚV að reynt hafi verið að ná samningum við ríkið en það hafi ekki tekist. Það sé miður því endurhæfingarúrræðið hafi sannað gildi sitt.