Franski bílaframleiðandinn, Peugeot Citroen, mun segja upp 8.000 manns og loka verksmiðju sinni í nágrenni Parísar vegna taprekstrar. Verksmiðjan í Aulnay, skammt frá París, er í dag með um 3.000 starfsmenn og verður lokað árið 2014. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Fyrirtækið tilkynnti í síðustu viku að salan á fyrstu sex mánuðum ársins hefði fallið um 13% og er krísan í Evrópu talin ein helsta orsökin. Önnur verksmiðja, í Rennes í Frakklandi mun segja upp 1.400 manns af þeim 5.600 starfsmönnum sem þar starfa. 3.600 önnur störf eru einnig í hættu í verksmiðjum fyrirtækisins víðsvegar í Frakklandi.