Eins og áður hefur komið fram hefur IGS Ground Services gripið til hópuppsagna en félagið mun fækka um 44 stöðugildi.

Uppsagnir, sem eru þær umfangsmestu í sögu félagsins til þessa, hafa verið tilkynntar starfsmönnum og taka þær gildi með haustinu.

Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS, segir að uppsagnirnar komi til vegna þess að viðskiptavinir félagsins hafi verið að draga úr rekstri.

IGS er dótturfyrirtæki Icelandair Group hf. og annast flugvallaþjónustu við flugfélög og farþega á Keflavíkurflugvelli. Hjá félaginu starfa rúmlega 450 manns yfir vetrartímann en starfsmannafjöldinn hefur farið upp í 700 manns á sumrin.