*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 12. september 2019 16:55

Uppsagnir og lokanir hjá Icewear

Öllu starfsfólki prjónastofu Icewear í Vík og saumastofu á Ásbrú hefur verið sagt upp. Innlendi framleiðslu verður hætt vegna mikils kostnaðar.

Ingvar Haraldsson
Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Drífu.
Aðsend mynd

Drífa ehf., sem rekur vörumerkið Icewear, hyggst hætta innlendri fataframleiðslu í október eða nóvember. Öllum starfsmönnum á prjónastofu fyrirtækisins í Vík og saumastofu á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur verið sagt upp. Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Drífu, segir að sex starfsmenn hafa unnið í prjónastofunni í Vík og fjórtán í Ásbrú.

Aðalsteinn bendir á að Drífa er búið að vera í framleiðslu á íslenskri ull frá árinu 1972 þar sem gengið hafi á ýmsu í gegnum tíðina. „Við kaupum þessa prjónastofu í Vík árið 2012. Þá var stefnan og viljinn að reyna að reka þessa prjónastofu áfram,“ segir Aðalsteinn. 

„Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að við höfum reynt að hagræða mikið undanfarin ár þá er rekstrarumhverfið ekki hagstætt fyrir innlenda framleiðslu af neinu tagi.“ Rekstrarumhverfið er sé mjög erfitt hér á landi fyrir alla alþjóðlega samkeppni enda hafi önnur íslensk fatamerki einnig flutt starfsemi sína úr landi.

„Við erum búin að vera að borga með þessu í mörg, mörg ár og þetta var ákvörðun sem þurfti að taka á einhverjum tímapunkti eins og hún er leiðinleg,“ segir hann.

Aðalsteinn segir fyrirtækið hanna allar sína fatalínur áfram, bæði ullarvörur og útivistalínu. „ Við höfum smám saman verið að færa íslensku ullarframleiðsluna erlendis.“ Drífa flytur því ullina úr landi þar sem hún er unnin og svo flutt aftur til Íslands. „Það er bara mun hagkvæmara en að gera það hér. Fyrir utan að það er ekki vinnuafl hér á landi til að anna eftirspurn þó að maður myndi vilja það.“ 

Fyrsta smásöluverslun Icewear opnaði árið 2010 en í dag rekur fyrirtækið fyrirtækið fjórtán verslanir víða um land. Fyrirtækið velti þremur milljörðum króna á síðasta ári og var rekið með 23 milljóna króna tapi. Það var í fyrsta sinn sem fyrirtækið var rekið með tapi frá árinu 2008. Fyrirtækið er að fullu í eigu Ágústs Þórs Eiríkssonar. Fyrirtækið varð fyrir talsverðu tjóni vegna bruna í húsnæði fyrirtækisins í Miðhrauni í Garðabæ í fyrra. Félagið fékk 260 milljónir króna greiddar í bætur vegna þess samkvæmt ársreikningi síðasta árs.