Friðbert Traustason, formaður SSF
Friðbert Traustason, formaður SSF
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) eiga 80 ára afmæli í dag en samtökin sem þá hétu Samband íslenskra bankamanna (SÍB) voru stofnuð þann 30. janúar árið 1935 af starfsmönnum Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands.

„Það auðvitað skyggir verulega á afmælisdaginn að 43 starfsmönnum Landsbankans var sagt upp í gær og eðlilega verða því engin hátíðahöld í dag,“ segir Friðbert Traustason, formaður SSF.

Afmælisárinu verður samt sem áður fagnað með ýmsum hætti en einna helst mætti nefna eflingu útgáfumála en samtökin stefna á að vera með yfirgripsmikla kynningu á félaginu, þróun þess og sögu. Meðal annars verður gefið út veglegt blað næsta vetur tileinkað afmælinu þar sem rætt verður við fjölda félagsmanna um störf þeirra, breytt starfsumhverfi og viðhorf almennings til starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Í tilkynningu frá félaginu segir þó að fyrirsjáanlegt sé að afmælisárið verði samtökunum erfitt sökum anna við erfiða kjarasamninga og frekari hagræðingaraðgerða bankanna.