Í kjölfar þess að franska þjóðin hafnaði stjórnarskrársáttmála ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar var nýr forsætisráðherra skipaður í ríkisstjórn hægrimanna þar í landi, Dominique de Villepin, sem virðist ætla að láta verkin tala. Hann hefur nú þegar boðað breytingar á lögum sem gera smærri fyrirtækjum auðveldara um vik að segja upp starfsfólki, en möguleikinn á að segja upp fólki er í mörgum tilvikum nauðsynleg forsenda þess að fyrirtækin treysti sér til þess að ráða starfsmenn til að byrja með segir í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Þá hefur de Villepin hraðað einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og boðað hert eftirlit með útgjöldum til velferðarmála.

Það virðist því hafið yfir allan vafa að leiðtogar þessara stóru Evrópuríkja hafi áttað sig á mikilvægi umbóta í átt til aukins sveigjanleika á vinnumarkaði og aukinnar áherslu á markaðsbúskap og muni hrinda þeim í framkvæmd í náinni framtíð.

Byggt á frétt á heimasíðu SA.