Vinnumálastofnun bárust 3 hópuppsagnir í marsmánuði þar sem sagt var upp 57 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en um er að ræða fyrirtæki í fjármálastarfsemi, mannvirkjagerð og verslun. Ástæður uppsagnanna eru sagðar verkefnaskortur, rekstrarstöðvun og rekstrarerfiðleikar.

Alls var 29 manns sagt upp í fjármálastarfsemi eða 51% allra hópuppsagna í mánuðinum. Leiða má líkum að því að þar sé um að ræða starfsmenn VBS Fjárfestingabanka en þeim var öllum sagt upp stöfum rétt fyrir mánaðarmót.

Þá var16 manns sagt upp í mannvirkjagerð eða 28% og 12 manns í verslunarrekstri eða 21%.

Fram kemur að þessar hópuppsagnir koma flestar til framkvæmda á tímabilinu júlí til september 2010.

Alls hafa Vinnumálastofnun borist tilkynningar um uppsagnir 156 manns á árinu 2010 í hópuppsögnum. Flestar uppsagnirnar eru úr mannvirkjagerð 67, 29 úr fjármálastarfsemi, 27 úr verslun, 23 úr upplýsingaiðnaði og 10 úr iðnaði.