Uppsagnir hjá Icelandair mun væntanlega bera á góma á fundum sem boðaðir hafa verið í dag, þriðjudag, með starfsmönnum félagsins. Á fundunum verða framtíðarhorfur fyrirtækisins ræddar. Icelandair er dótturfyrirtæki Icelandair Group hf. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, boðaði í helgarblaði Viðskiptablaðsins víðtækar hagræðingaraðgerðir innan félagsins og um helgina bárust fregnir af mögulegum fjöldauppsögnum.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður Félags atvinnuflugmanna, hafði lítið um málið að segja þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann í gær. Hann vonaðist þó til að það myndi skýrast í dag. Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, tók í sama streng. Hún tók þó fram að frétt Sjónvarpsins um uppsagnir allt að 160 flugfreyja væri ekki rétt. Guðmundur Grétar Guðmundsson, varaformaður Flugvirkjafélags Íslands, sagði að félaginu hefðu ekki borist neinar tilkynningar um uppsagnir flugvirkja hjá Icelandair. Guðjón Arngrímsson, upplýsingastjóri Icelandair, vildi ekki tjá sig um hugsanlegar uppsagnir, þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því í gær.

Stöðugildum fækkað hjá IGS

IGS, sem einnig er dótturfélag Icelandair Group hf., hefur þegar tilkynnt um uppsagnir. „Við munum draga aðeins saman og fækka stöðugildum í haust,“ segir Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS. Félagið annast víðtæka flugvallarþjónustu við flugfélög og farþega á Keflavíkurflugvelli. Gunnar segir greinilegan samdrátt ríkja hjá flugfélögum. Flugrekstur hefur víðast hvar gengið erfiðlega upp á síðkastið. Hátt olíuverð í heiminum hefur þar mikil áhrif. Icelandair Group tapaði 1,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2008. Hlutabréf í Icelandair Group hf. hækkuðu í kjölfar frétta um fyrirhugaðar uppsagnir en bréf í félaginu hafa lækkað undanfarið.