Styrking krónunnar hefur dregið úr hagkvæmni íslensk sjávar- og fiskiðnaðar, enda fást nú færri krónur fyrir vörurnar erlendis.

Sjávarútvegurinn, sem er oft aðalatvinnuvegurinn á landsbyggðinni, fékk líkt og ferðaþjónustan ákveðinn byr undir báða vængi í kjölfar hrunsins og gengisveikingar krónunnar, en nú dregur úr á ný.

Greint er frá því á bb.is að rækjuvinnslan Kambi sem er er með starfstöðvar bæði á Ísafirði og í Bolungarvík hafi sagt upp sjö starfsmönnum, en hjá fyrirtækinu starfa 40 manns.

Með 20% of marga í vinnu

„[við] eigum [...] ekki annarra kosta völ að grípa til slíkra aðgerða,“ segir Albert Haraldsson rekstrarstjóri Kamba.

„Við erum búin að prófa að vera með skiptakerfi í vinnslunni, en því miður er það þannig að 20% of margir eru í vinnu þegar skiptakerfið er tekið af. Þá setjumst við sameiginlega yfir það hvernig má minnka kostnað. Aðföngin sem kaupa þarf fyrir vinnsluna eru enn jafn dýr, en við fáum talsvert færri krónur fyrir vöruna okkar.“

Í fréttinni er jafnframt vísað í orð margra forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum sem segjast harka á meðan krónan er svona sterk.

„Gengisbreytingarnar, svona til skemmri tíma, eru nær eingöngu tekjuskerðing. Og fyrir unga vinnslu sem ekki hefur safnað varasjóðum er þetta mjög erfitt og þetta er barningur frá degi til dags,“ er haft eftir Steinþór Bjarna Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Fiskvinnslu Flateyrar.