Uppselt er á stórsýninguna Verk og vit 2008 sem verður haldin dagana 17.-20. apríl nk. í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar.

Verk og vit er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð en þetta verður í annað skipti sem sýningin er haldin. Um 100 sýnendur taka þátt í Verki og viti 2008 og nú stefnir í að sýningin verði sú veglegasta sem haldin hefur verið á þessu sviði hér á landi.

Sýningin verður afar fjölbreytt enda koma sýnendur af fjölmörgum sviðum atvinnulífsins. Sem dæmi má nefna byggingarverktaka, verkfræðistofur, tæknifyrirtæki, tækjaleigur, fjármálafyrirtæki, orkufyrirtæki, skóla, ráðagjafarfyrirtæki og sveitarfélög. Þá fjölgar jafnframt erlendum sýnendum frá Verki og viti 2006.

Margit Elva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Verks og vits, segir að vænta megi spennandi sýningar. „Sýnendur eru á fullu við undirbúning og við heyrum á þeim að sýningin verði fjölbreytt og áhugaverð. Það er greinilegt að mikill kraftur er í þessum fyrirtækjum sem hafa staðið að stórfelldri uppbyggingu síðustu árin hér á landi og mikill hugur í mönnum,“ segir Margit.

Nýbygging Háskólans í Reykjavík, fyrirhugað háskólasjúkrahús, nýjungar í vetnisvæðingu og mörg af stærstu skipulagsverkefnum höfuðborgarsvæðisins verða meðal þess sem fyrir augu ber á sýningunni.

Þá verða kynntar fjölmargar tækninýjungar í byggingariðnaði og mannvirkjagerð auk þess sem sýnd verða nýjustu tæki og tól fyrir áhugamenn jafnt sem atvinnumenn í byggingariðnaði.

Fyrstu tvo dagana, 17. og 18. apríl, verður sýningin opin fyrir fagaðila en helgina 19.-20. apríl verður almenningur einnig boðinn velkominn.

Fjölbreyttir viðburðir verða haldnir samhliða Verki og viti og meðal þeirra má nefna Íslandsmót iðngreina sem haldið verður föstudaginn 18. og laugardaginn 19. apríl í anddyri gömlu Laugardalshallarinnar.

Á mótinu etja kappi iðnnemar og nýútskrifaðir iðnaðarmenn í ellefu iðngreinum. Þá ber að geta þess að fimmtudaginn 17. apríl verður haldin ráðstefna undir yfirskriftinni „Skipulag eða stjórnleysi?“ um skipulagsmál, fjármögnun og nýjar framkvæmdir auk ýmissa annarra viðburða á vegum samstarfsaðila og sýnenda.