Uppselt er á haustráðstefnu Advania sem haldin verður á morgun, en þúsund manns hafa tilkynnt um þátttöku sína á ráðstefnunni.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Advania að ráðstefnan verði sú fjölsóttasta frá upphafi, en þetta er tuttugasta ráðstefnan sem Advania og forverar þess halda. Á ráðstefnunni verður boðið upp á þrjár málstofur með 27 fyrirlesurum frá innlendum og erlendum sérfræðingum, notendum og stjórnendum í upplýsingatæknimálum fyrirtækja.

Meðal þeirra sem munu stíga á stokk eru fyrirlesarar frá Apple, Google, Plain Vanilla, Samsung, Microsoft og CCP.