Sporthýsaframleiðandinn Mink Campers hefur nú þegar selt alla framleiðslu sína þessa árs. Fyrirhugað er að framleiða 60 sporthýsi á árinu. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.

Fjármögnunarferli félagsins, sem tilkynnt var 5. júlí, stendur enn yfir. Félagið hyggst sækja sér að lágmarki 500 þúsund evrur, andvirði um 79 milljónir króna, en félagið hefur tryggt sér um 92% af þeirri upphæð.

Sú upphæð er um 13% hlutur í félaginu og er verðmæti þess því um 3,3 milljónir evra eða um 528 milljónir króna.

Þegar fjármögnunin lýkur hyggst félagið færa starfsemi sína til Lettlands. Þar ætlar félagið að framleiða 450-500 sporthýsi á næsta ári og allt að 1.500 eintök á ári frá árinu 2022.