Með hækkandi sól og stigvaxandi bólusetningum virðist líf aftur vera að færast í ferðamannaiðnaðinn.

Faraldurinn hefur gert lítið til að slá á lyst Íslendinga á utanlandsferðum og má segja að þeir séu glorsoltnir eftir að hafa verið útlandasveltir í rúmt ár. Bjartsýni er farin að gera vart við sig hjá ferðaskrifstofum sem eru tilbúnar til þess að svala þörf Íslendinga og líta þær jákvæðum augum til haustsins.

Bókanir í ferðir ganga vel

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, segir að rekstur félagsins sé að lifna við í kjölfar bólusetninga. Vel gengur að bóka í ferðir eftir því sem líður á haustið og uppselt er í ferðir til Tenerife yfir jólin og í skíðaferðir eftir áramót. Þá hafa bókanir til Alicante gengið vel og þurfti að fá inn stærri flugvélar til að anna eftirspurn í þessum mánuði.

„Við vorum búin að draga mikið úr framboði en við gátum fengið stærri vélar hjá Icelandair. Þannig að við erum að fljúga breiðþotum út til Alicante í maí út af mikilli eftirspurn,“ segir Þráinn.

Þá hefur einnig gengið vel að bóka í ferðir til Tenerife og fleiri staða í október. Hann segir að þar séu meira á ferðinni yngri fjölskyldur sem hafa ekki endilega verið bólusettar, en eru vongóðar um að það muni brátt gerast.

Þá segir Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar, að bókanir séu farnar að skríða af stað. „Fyrstu flugin okkar eru í júní og það er svona aðeins að kippa við sér. Við erum að sjá hvort sumarferðirnar séu almennilega að fara af stað. Það er smá kraftur í því, þetta er að skýrast, af því að nú eru fleiri og fleiri að verða bólusettir. Þetta er að koma hægt og rólega.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Sagt er frá ævintýralegri sögu flugreksturs Íslendings í Indónesíu.
  • Rætt við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka, um niðurstöður væntingakönnunar Seðlabanka Íslands.
  • Hagnaður íslenskrar verslunar sem selur hjól-, golf- og barnavörur fimmfaldaðist á síðasta ári og velta jókst verulega.
  • Þýski lyfjarisinn Bayer hefur farið fram á að lögbann verði lagt við markaðssetningu hjartalyfs hér á landi.
  • Hæstaréttarlögmaður veltir upp þeim möguleika að Íslendingar feti í fótspor Dana og setji ákvæði um hluthafasamkomulög í lög.
  • Íslenskur vísindamaður er einn lykilstarfsmanna norsks lyfjafélags sem þróar nýja tegund krabbameinslyfja og leitar að nýju hlutafé.
  • Kaup Björgólfs Thors á hlutum í fjármálafyrirtækjum nýlega reifuð.
  • Rætt við höfund bókarinnar hagfræði á mannamáli.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um sjálfbærni ríkisins og einkaframtakið.