Sýningin Verk og vit 2016 verður opnuð á fimmtudaginn, en þegar er uppselt á sýningarsvæðið í Laugardalshöllinni.

Alls munu um 90 fyrirtæki ásamt sveitarfélögum kynna vörur og þjónustu, en sýningin stendur yfir í fjóra daga. Meðal þeirra geira sem munu kynna sínar vörur og þjónustu eru fyrirtæki innan byggingargeirans, s.s. byggingarverktaka, byggingarvöruverslanir og steypustöðvar; fjármálafyrirtæki; háskóla; verkfræðistofur og öryggisfyrirtæki.

Sýningin Verk og vit var síðast haldin árið 2008 en þá sóttu um 18 þúsund gestir sýninguna. Sýningin Verk og vit er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum. Hún verður haldin í þriðja sinn dagana 3.–6. mars 2016 í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal.