Uppselt er á árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica á morgun. Ekki er hægt að bæta við fleiri sætum á þinginu. Yfirskrift Viðskiptaþingsins að þessu sinni er „ Uppbygging alþjóðageirans á Íslandi “ þar sem fjallað verður um það hvort Ísland sé nægjanlega opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og hvernig efla megi alþjóðageirann á Íslandi.

Eins og venja er mun formaður Viðskiptaráðs, Hreggviður Jónsson, ávarpa þingið. Á meðla þeirra sem munu taka til máls eru Sven Smit, framkvæmdastjóri McKinsey & Company í Evrópu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel og Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Að erindum loknum munu fara fram pallborðsumræður.

Edda Hermannsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, er fundarstjóri.

Fjallað er um viðskiptaþingið í viðtali við Frosta Ólafsson í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .