Nú styttist í opnun stórsýningarinnar Verks og vits 2006 fimmtudaginn 16. mars. Mikið er um að vera í Laugardalshöllinni þessa dagana þar sem iðnaðarmenn og fjöldi annarra leggja nótt við dag við undirbúning sýningarinnar. Fjöldi manns einbeitir sér að því að allt verði tilbúið á réttum tíma en sýningin verður opin fagaðilum á fimmtudag og föstudag og almenningi á laugardag og sunnudag.

Ekki fer á milli mála að sýnendur leggja metnað sinn í að gera bása sína sem glæsilegasta. Mikill fjöldi fólks er að störfum í tengslum við svo umfangsmikla sýningu og inni í sýningarsalnum má sjá smiði, málara, múrara, rafvirkja, flísalagningamenn, pípulagningamenn og fólk sem sérhæfir sig í sýningum ásamt starfsfólki Hallarinnar.

Tækin sem unnið er með við uppsetningu sýningarinnar eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá stærstu krönum til smæstu skrúfjárna. Að sjálfsögðu er stuðst við nýjustu tæki og tól en þó ekki eingöngu. Til að mynda hefur um hálfrar aldar gömul Pfaff-saumavél verið tekin fram til þess að sauma saman veggklæði og fleira.

Fyrir opnun sýningarinnar verður haldin ráðstefna um þróun fasteignamarkaðarins og rekstur fasteigna. Meðan á sýningunni stendur verða haldnar ráðstefnur og kynningarfundir, m.a. um heilbrigðan útboðsmarkað, nýja tónlistar- og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfn og nýjan Landspítala. Ennfremur mun Reykjavíkurborg kynna hvað efst er á baugi í skipulagsmálum.