Ólafur Daðason, framkvæmdastjóri Hugvits, segir góðan árangur í rekstri hugbúnaðarfyrirtækja ekki vera sjálfsprottinn.

„Við erum bara eitt af þessum mörgu fyrirtækjum á Íslandi sem vinnum bara vinnuna okkar og sækjum fram. Einfalda útgáfan á því af hverju okkur gekk vel á síðasta ári er sú að við erum 25 ára gamalt fyrirtæki og við höfum lært af því að vinna með góðum viðskiptavinum og taka þátt í útboðum þannig að þekkingin hefur safnast saman. Síðan árið 2017 settum við nýja lausn út á markaðinn og erum við að uppskera af því núna,“ segir Ólafur.

„Auðvitað skýrist stór hluti af afkomu okkar á síðasta ári að við seldum skrifstofurýmið okkar í Tunguhálsi, sem við leigjum áfram, en við eigum áfram eina eldri fasteign sem við leigjum út, þó lykilatriðið sé að verkefni okkar á síðasta ári gengu vel. Það er heilmikil áhætta í hugbúnaðargeiranum og stór verkefni skipta sköpum um rekstur fyrirtækja í okkar geira. Á síðasta ári vorum við með nokkur ný stór verkefni sem vel gekk að skila, en samtals erum við með nokkur hundruð viðskiptavini bæði hér heima og fyrir utan landsteinana, helst fyrirtæki og stofnanir.“

Ólafur segir félagið vera að uppskera nú eins og það sáði síðustu árin með þróun nýjustu kynslóðar GoPro Foris mála-, skjala- og ferlastjórnarkerfi félagsins.

„Við eyddum meira en þrettán hundruð milljónum í gerð síðustu útgáfu, og erum við núna að vinna í því að klára allt í kringum hana, og auðvitað alltaf að þróa hana eitthvað áfram. Þetta var sjö ára þróunarverkefni en hugbúnaðargeirinn er þess eðlis að það þarf mjög stórar fjárfestingar sem kosta mikið. Þær eru jafnframt áhættusamar því við þurfum að treysta því að þegar þróunarvinnunni er lokið sé tæknin komin á þann stað sem við vonuðumst eftir en ekki komin einhver ný upplýsingabylting,“ segir Ólafur en félagið undirbýr nú markaðssókn lausnarinnar á erlenda markaði.

„GoPro Foris-kerfið heldur utan um vinnslu mála, framvindu þeirra, aðgangsstýringar, skjöl, tölvupósta og önnur samskipti sem tengjast málunum. Samhliða því að einfalda vinnslu og yfirsýn hjálpar kerfið til við að tryggja að reglum, svo sem eins og persónuverndarreglum, reglum Þjóðskjalasafna um skjalavistun, stjórnsýslureglum og öðrum sem við eiga hverju sinni, sé framfylgt.

Það eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir þar sem starfsemin stjórnast algerlega af málum og vinnslu þeirra, mikið til dæmis í stjórnsýslunni, en á síðasta ári unnum við og sáum um uppsetningu og rekstur á kerfunum sem halda utan um öll dómsmál í Landsrétti og fyrir héraðsdómum landsins.“

Ólafur segir að síðan nýja lausnin varð tilbúin til notkunar hafi gengið vel að selja hana sem og uppfæra langtímaviðskiptavini frá eldri tækni yfir í þá nýju. Sem dæmi um þetta má sjá að um miðjan septembermánuð sigraði Hugvit í útboði um málastjórnarkerfi fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

„Þetta er verkefni upp á tæpan milljarð og gott dæmi um að aðilar hafi verið að velja okkar kerfi í samkeppni við önnur á Evrópska efnahagssvæðinu.“ Ólafur er bjartsýnn á áframhaldandi góðan rekstur.

„Það er hugbúnaðarfyrirtækjum eins og okkar nauðsynlegt að halda vel utan um reksturinn, sérstaklega á tímum eins og nú þegar við erum að uppskera af þróunarvinnu fyrri ára, því áður en langt um líður munum við þurfa að leggja fjármagn í þróun næstu útgáfu.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .