Mikið frost í Frakklandi síðastliðna viku hefur leitt til þó nokkurs tjóns á þrúgum og blómum í vínekrum og aldingörðum. Svo gæti farið að uppskeran á ákveðnum svæðum verði 90% lægri fyrir vikið.

„Þetta var eins og að vetur komi að vori,“ hefur Financial Times eftir Didier Delagrange, en fjölskylda hans hefur stundað vínræktun í Volnay í Burgundy í gegnum sjö kynslóðir.

Delagrange segir að Chardonnay svæðið hafi orðið fyrir meiri áhrifum af veðurfarinu þar sem teinungarnir hafi verið komnir lengra á leið. Um helmingur alls viðviðar í Bourgogne héraðinu varð fyrir skemmdum, samkvæmt framleiðendum á svæðinu.

Í Chablis héraðinu, náði hitastigað niður í mínus sjö gráður. Vínræktarmaðurinn Thierry Mothe segir að um 90-95% af uppskerunni á svæðinu muni líklega glatast.

Frostið náði alveg suður til Bordeaux í suðvestur Frakklandi. Áhrif frostsins voru einkum mikil þar sem kuldinn kom í kjölfar nokkurra daga af góðu veðri sem hafði hraðað vexti planta.

Samfélagsmiðlar í Frakklandi hafa verið litaðir af myndum af glóðakerum á vínekrum að nóttu til en vínræktarmenn hafa með þessu reynt að draga úr skaðanum. Aðferðin er þó dýr ásamt því að skila takmörkuðum árangri í miklu frosti.

Delagrange segir að hann hefði þurft 4.500 ólíuknúna hitara til að ná yfir alla 15 hektara vínekruna sína en það hefði kostað hann rúmlega 50 þúsund evrur, eða um 7,6 milljónir króna, fyrir köldustu tvær næturnar. Fyrir vikið hafi vínframleiðendur einungis haft efni á að vernda fínustu vínin sín.