Ímark-dagurinn var haldinn nýlega og eins og venjulega var salurinn troðfullur af fólki áhugasömu um markaðsmál. Fyrirlesarar voru nær allir erlendir og fluttu þeir allir mjög áhugaverð erindi. Var m.a. farið yfir það hvernig læknavísindin geta aukið skilning okkar á því hvernig maðurinn hugsar og tekur ákvarðanir og hvernig þessi þekking getur auðveldað fyrirtækjum að taka réttar ákvarðanir við vöruhönnun og markaðssetningu.

Þá sagði José Miguel Sokoloff frá herferð, sem kalla mætti eins konar auglýsingaherferð, sem miðaði að því að fá 331 skæruliða í Kólombíu til að leggja niður vopn yfir jólahátíðina. Var reynt að höfða til skæruliðanna og fjölskyldna þeirra með óvenjulegri nálgun.

Hápunktur dagsins var svo afhending íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðursins, en í þetta sinn voru verðlaun veitt í sextán flokkum, þar á meðal í flokknum stafrænar auglýsingar og var það í fyrsta sinn sem slíkar auglýsingar voru verðlaunaðar.