Teymi hf. hefur keypt allt hlutafé í Landsteinum Streng ehf. og Hugi Ax ehf. af Hands Holding hf. Samhliða kaupunum hefur Teymi selt ríflega 80% af eignarhlut sínum í hlutdeildarfélaginu Hands Holding hf. þar sem Teymi átti 48,7% eignarhlut fyrir. Teymi á 14,5% eignarhlut eftir viðskiptin og nemur bókfært verð hans 101 milljón króna. Ábyrgð Teymis á skuldbindingum Hands Holding lækkar úr 7,5 milljörðum króna og nemur nú um 2,7 milljörðum króna segir í tilkynningu til Kauphallarinnar

Kaupverðið fyrir félögin tvö er greitt með eignarhlut í Hands Holding, lánsfé og yfirteknum skuldum að fjárhæð 2.160 milljónum króna og handbæru fé að fjárhæð 1.298 milljónum króna. Nánari grein verður gerð fyrir kaupunum á fundi sem haldinn verður 31. október næstkomandi um leið og afkoma Teymis á 3. ársfjórðungi verður kynnt.

Samhliða þessum viðskiptum selur Hands Holding einnig aðrar rekstrareiningar en eftir þau viðskipti nema vaxtaberandi skuldir félagsins að frádregnu handbæru fé um 3,0 milljörðum króna. Í Hands Holding standa þá eftir Kerfi í Danmörku og Svíþjóð, Hands í Noregi, SCS í Bandaríkjunum og Aston Baltic í Lettlandi. Unnið er að endurfjármögnun Hands Holding.

Hlutdeildartap vegna rekstrar Hands Holding á 3. ársfjórðungi, sölutap og niðurfærsla af eignarhlut Teymis nemur samtals um 1,1 milljarði króna sem gjaldfærðar verða á 3. ársfjórðungi.

Áhrif framangreinda ráðstafana á efnahagsreikning Teymis miðað við 30. júní 2007 eru þau, að vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé hækka úr 16,1 milljarði í 19,5 milljarða. Eiginfjárhlutfall verður 26% í stað 30% áður og veltufjárhlutfall verður 1,44 í stað 1,68 áður.


Starfsfólk Landsteina Strengs og Hugar Ax býr að mikilli reynslu og þekkingu í sölu og ráðgjöf á viðskiptalausnum t.d. Microsoft Dynamics NAV og - AX (Navision og Axapta), stjórnendalausnum, veflausnum, þjónustulausnum o.fl. Áætluð velta Landsteina Strengs og Hugar Ax nemur samtals um 2,3 milljörðum króna og áætlaður hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nemur um 350 milljónum króna á árinu 2007. Hjá félögunum starfa um 200 manns.

Landsteinar Strengur og Hugur Ax verða hluti af samstæðureikningi Teymis hf. frá 1. október 2007 en þá er yfirtökudagur samkvæmt kaupsamningi.


?Allt frá hlutafjárútboði í mars sl. höfum við lýst áhuga okkar á að vaxa með kaupum á góðum rekstrareiningum. Landsteinar Strengur og Hugur Ax eru að okkar mati góð félög, með sterkan hóp starfsmanna og sýna góða afkomu. Við bindum miklar vonir við framtíðarrekstur þessara félaga og teljum að þau haldi áfram að vaxa og sýna enn betri afkomu. Félögin eru því kærkomin viðbót inn í mjög sterkan upplýsingatæknihluta Teymis og styrkja hann til enn frekari sóknar. Þá teljum við hagsmunum Teymis betur þjónað með því að minnka eignarhlut okkar í Hands Holding, enda hefur umfjöllunin um það félag oft skyggt á árangur Teymis," segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis í tilkynningu.