*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 25. maí 2018 18:01

Uppskipting drægi úr vogaraflinu

Forstjóri Landsvirkjunar segir ekki skorta samkeppni á raforkumarkaði fyrir stórnotendur og því óráðlegt að skipta félaginu upp.

Ritstjórn
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar
Aðsend mynd

Forstjóri Landsvirkjunar segir það óráðlegt að skipta fyrirtækinu upp því það minnki vogarafl þess í samningum við erlend stórfyrirtæki. Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar tekur ekki undir með forstjóra HS Orku að skipta þurfi upp Landsvirkjun til að skapa eigi virkan smásölumarkað með raforku hér á landi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma voru það viðbrögð Ásgeirs Margeirssonar forstjóra HS Orku við ummælum Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að mögulega þyrfti að endurskoða fyrirkomulag smásölumarkaðar með raforku hér á landi.

Bjarni sagði á ársfundi Landsvirkjunar að fá merki væru um að tekist hafi að koma á virkri samkeppni á smásölumarkaði á raforku hér á landi og líkt og stefnt hafði verið að.

Selja 85% orkunnar til stórnotenda

Hörður skrifar um málið í nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins þar sem hann segir það ekki samrýmast hagsmunum íslensku þjóðarinnar að skipta fyrirtækinu upp. Segir hann orkumarkaðinn á Íslandi skiptast í tvennt nú þegar, annars vegar roforkusölu til lítils hóps stórnotenda og hins vegar til allra annarra almennra nota fólks og fyrirtækja.

„Þrátt fyrir að Landsvirkjun eigi ekki í beinu viðskiptasambandi við þessa síðarnefndu almennu notendur endar engu að síður lítill hluti, eða um 15%, af raforkuvinnslu fyrirtækisins hjá almennum notendum,“ segir Hörður.

„Einu tengsl Landsvirkjunar við rafmagnsreikning íslenskra heimila og almennra fyrirtækja utan stórnotenda eru því í gegnum áðurnefndan heildsölumarkað og þar hefur verð frá Landsvirkjun í grófum dráttum fylgt verðlagi síðustu ár.“

Segir verðið á heildsölumarkaðinn í raun hafa lækkað um 2% á síðasta ári, en verðið frá Landsvirkjun sé í raun einungis um fjórðungur af heildarkostnaði almennra neytenda vegna dreifingar- og flutningskostnaðar auk álagningar sölufyrirtækjanna.

Landsvirkjun lítill fiskur í stórri tjörn

„Megnið af raforkuvinnslu Landsvirkjunar, eða 85%, fer inn á stórnotendamarkað, sem er alþjóðlegur samkeppnismarkaður,“ segir Hörður sem segir að það skýri bætta afkomu Landsvirkjunar sem fjallað var um á áðurnefndum ársfundi.

„Þar er Landsvirkjun lítill fiskur í stórri tjörn og keppir við orkufyrirtæki víðs vegar um heim um viðskipti stórnotenda. Landsvirkjun hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á að endurspegla hækkandi verð á alþjóðamörkuðum í endursamningum við þessa aðila, draga úr tengingu orkuverðs við álverð og gera nýja samninga á hagstæðum kjörum.“

Segir hann samkeppnina á stórnotendamarkaðnum vera afar virka, heilbrigða og alþjóðlega, og því væri óráðlegt að skipta fyrirtækinu upp.

„Það myndi aðeins leiða til þess að vogarafl fyrirtækisins (og íslensku þjóðarinnar) í samningum við erlend stórfyrirtæki minnkaði umtalsvert, raforkusamningar yrðu íslenskum raforkufyrirtækjum almennt óhagstæðari og eðlileg auðlindarenta til þjóðarinnar myndi síður raungerast.“