Að sögn Hjörleifs Kvarans, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, var það skoðun þeirra og fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar í stjórn Hitaveitu Suðurnesja að betra væri að fresta uppskiptum félagsins, meðal annars vegna þess afstaða til skiptingar félagsins var tekin út frá hálfsársuppgjör þess.

,,Við vildum fara hægar í þetta og skoða það aðeins betur. Við vorum ekki tilbúnir að afgreiða þetta á þessari stundu. Við vorum að láta skoða ýmsa þætti fyrir okkur sem okkur fannst ekki koma alveg heim og saman við það sem fyrir okkur var lagt. Svo hafa orðið svo miklar breytingar í íslensku efnhagslífi á síðustu vikum og mánuðum, að við töldum þarft að fara hægar í þetta því það þarf ekki að klára málið fyrir 1. júlí á næsta ári og við vildum taka lengri tíma í þetta í ljósi allra þeirra breytinga sem orðið hafa," sagði Hjörleifur.

Að sögn Hjörleifs var á fundinum byggt á upplýsingum um hagi félagsins miðað við sex mánaða uppgjör og sagði hann mikið hafa gerst síðan. ,,Svo voru þættir í þessu sem við töldum að þyrfti að fara betur ofaní. Til dæmis hvernig verður farið með auðlindina og hvar hún á að lenda. Það virðist sem það eigi að selja hana út úr félaginu en ekki talað um hvering eigi að gera það.”

Komið hefur fram hjá Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að það þeir hafa áhuga á að bjóða í auðlindina eins og lesa má í annari frétt hér á vefnum. Hjörleifur sagði að það þyrfti að vera tryggt að gagnsætt ferli yrði við sölu auðlindarinnar. ,,Það er ýmislegt í þessu sem okkur þótti ekki vera nægilega skýrt og upplýst og því vildum við taka lengri tíma í málið.”

Hjörleifur játaði að þar sem OR væri samkeppnisaðili Hitaveitu Suðurnesja þá hefði það áhrif á aðkomu þeirra að stjórn félagsins. ,,Af þessu leiðir að við höfðum okkur ekki mikið í frammi og við höfum líka takmarkaðar heimildir til upplýsingagjafar um félagið. Okkur hefur sýnilega líka verið haldið vel frá þessu öllu enda má segja að tveir hluthafar hafi stýrt þessu án mikils samráðs við aðra. Af þeim á stæðum vorum við ekki tilbúnir að fallast á það sem þeir voru að leggja til.”

Hjörleifur sagði að engin vafi væri á að þeir {Capacent} sem unnið hefðu skiptiáætlunina hefðu verið mataðari á upplýsingum frá Reykjanesbæ og Geysi Green Energy en það voru fulltrúar þeirra sem ákváðu skiptinguna. ,,Ég óskaði eftir því í febrúar á þessu ári, þegar farið var að skoða þessi mál, að séð yrði til þess að Orkuveitan fengi einhverja aðkomu að þessari uppskiptingu og hvernig hún færi fram fjárhagslega. Ég bauðst til að setja í það aðila sem væru óháðir Orkuveitunni, bæði fjárhagslega og starfslega, og það yrði einhver utanaðkomandi aðili sem ekki tengdist okkur á nokkurn hátt sem kæmi þar að. Það fékkst aldrei. Ef menn ákveða að halda eigendum 30% hlutafjár frá þesari vinnu er ekki líklegt að það leiði til endanlegrar samstöðu.”

Hjörleifur segir að minnihlutinn hafi því þurft að vinna eigin greinargerð þegar upplýsingar láu fyrir. Andstaða þeirra byggðist á þeirri greinargerð enda var niðurstaða þeirrar greinargerðar önnur en meirihlutinn hafði kynnt, bæði hvað varðar verðmæti og skiptihlutföll.