Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums-Burðaráss, telur að innan tíðar megi vænta kaflaskila í rekstri fjármálafyrirtækja á Ísland. "Það er alveg ljóst að óvissa hefur verið að aukast í íslenska hagkerfinu. Hlutabréfaverð ætti í eðli sínu að fara upp og niður en það er búin að vera stanslaus uppsveifla hérna í mörg ár en vitaskuld var byrjað á mjög lágum punkti," segir Björgólfur Thor í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

"Nú hefur aldan náð langt og hátt og það er spurning hvenær fer að lægja. Ég held að það sé sú spurning sem liggur á öllum. Inn í þetta blandast auðvitað umræða um krónuna, stærð hagkerfisins og viðskiptalífsins og hvernig bankarnir geta stutt við bakið á því. Því má sjá þarna ákveðin kaflaskil en ég tek fram að þetta þarf ekki að enda í hruni eða táradal en menn verða að hafa hugfast að það eru ekki alltaf jól. Menn varða að hafa í huga að það hafa verið ótrúlegar tölur á ávöxtun ár eftir ár og því tæpast vit í að halda að það verði til frambúðar," sagði Björgólfur Thor en rætt var við hann eftir aðalfund Straums-Burðaráss en í ræðu sinni þar benti hann á að tækifærum til umbreytinga og uppstokkunar hefur fækkað.

- En hver gætu þessi kaflaskil orðið? "Kaflaskilin hljóta að vera þau að það eru búin að vera mikil uppskipti og því hljóta menn að spyrja sig hvað sé eftir. Manni finnst að það sé að hægja á ferðinni á öllu, það er ennþá ferð á markaðnum en maður hefur það á tilfinningunni að það sé að hægja á sér. Ég sé ekki kaflaskil sem slík en þau gætu átt sér stað."