Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum hafa tekið saman uppskrift að farsælli nýsköpun og gefið út í ritinu The Nordic Recipe for Successful Innovation. Uppskriftin var birt í morgun í höfuðstöðvum Marel Food Systems í Garðabæ. Vilhjálmur Egilsson kynnti uppskriftina og Hörður Arnarson, forstjóri Marel, ræddi um mikilvægi nýsköpunar í rekstri starfandi fyrirtækja og undirstrikaði framlag hennar til verðmætasköpunar. Oftar en ekki væri horft um of á ytri vöxt fyrirtækja með yfirtökum í stað þess að horfa á innri vöxt, en öflugt nýsköpunarstarf geri fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna.

Auka verður vægi nýsköpunar

Ef Norðurlöndin ætla sér að halda stöðu sinni meðal þjóða heims verða þau að leggja aukna áherslu á nýsköpun. Áætlað er að vaxandi viðskiptaveldi í Asíu muni stórauka framlög sín til rannsókna og þróunarstarfs á næstu árum og áratugum. Til dæmis er áætlað að Kínverjar muni verja um 2,7% af landsframleiðslu sinni til rannsókna og þróunar árið 2020 en í dag er hlutfallið 1,35%. Ef efnahagslífið í Kína heldur áfram að vaxa með þeim hraða sem það gerir í dag má búast við því að frá Kína muni flæða nýjar hátæknivörur og þjónusta. Fyrirtæki á Norðurlöndum verða að búa í haginn fyrir aukna samkeppni og ljóst að Íslendingar verða að stórauka áherslu á nýsköpun á komandi árum.


Norðurlöndin framarlega á sviði nýsköpunar

Ef horft er á stöðu nýsköpunar á Norðurlöndunum í alþjóðlegu samhengi kemur í ljós að Finnland og Svíþjóð eru í fararbroddi en hin Norðurlöndin standa þeim ekki langt að baki. Samkvæmt yfirliti PRO INNO Europe yfir frammistöðu einstakra þjóða á sviði nýsköpunar (European Innovation Scoreboard) www.proinno-europe.eu eru Svíar, Finnar og Danir í úrvalsdeildinni þegar kemur að nýsköpun en Íslendingar og Norðmenn þurfa að una því að vera í næstu deild fyrir neðan eins og sjá má í myndinni hér að neðan. Ítarlegri niðurstöður má sjá í The Nordic recipe for successful innovation.
Almennt er umhverfi nýsköpunar svipað á Norðurlöndunum en Ísland sker sig úr fyrir að verja miklu fé í rannsóknar og þróunarstarf en slæmu fréttirnar eru þær að það skilur ekki nægilega mikið eftir sig.


Af litlum neista

Ellefu sögur af farsælli nýsköpun fyrirtækja eru sagðar í riti samtaka atvinulífsins á Norðurlöndum og á grundvelli viðtala við frumkvöðla og stjórnendur fyrirtækjanna hafa samtökin tekið saman og birt uppskriftina að farsælli nýsköpun. Meðal þeirra sem rætt er við eru Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems, Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar og Hreiðar Már Guðmundsson forstjóri Kaupþings. Í ritinu greina þeir í hverju velgengni fyrirtækja þeirra er fólgin og leggja línurnar til framtíðar. Sögur þessara fyrirtækja eru ótrúlegar á köflum og ættu að reynast frumkvöðlum dagsins í dag kraftmikill innblástur. Saga Marel hófst t.d. með hugmynd tveggja manna sem fæddist í Háskóla Íslands árið 1978 en í dag eru starfsmenn Marel yfir 2.000. Hreiðar Már Guðmundsson, er starfsmaður númer 27 hjá Kaupþingi en í lok ágúst voru starfsmenn Kaupþings yfir 2.700. Bakkavör sem var stofnað árið 1986 af þremur mönnum var í lok ágúst með yfir 17.000 starfsmenn í starfsliði sínu í yfir átta löndum!


Stjórnendur þessara fyrirtækja búa yfir dýrmætri reynslu sem lesa má um í The Nordic Recipe for Successful Innovation. Þeir koma víða við en meðal þess sem Hörður Arnarson leggur áherslu á er að forðast ætti að miðstýra nýsköpunarstarfi og miklu máli skipti að búa yfir hæfu fólki sem sjái og grípi tækifærin þegar þau gefast.


Ágúst Guðmundsson undirstrikar í ritinu mikilvægi þess að fyrirtæki geti notið takmarkaðs opinbers stuðnings á upphafsárum sínum, t.d. á sviði vöruþróunar. Fullyrðir hann að það hafi ráðið miklu varðandi framtíð Bakkavarar að fyrirtækið hafi snemma hlotið styrk til að kosta hálfa stöðu á því sviði. Þá hafi samstarfið við Kaupþing opnað fyrirtækinu nýjar leiðir en bæði fyrirtækin brutust út úr stöðnuðu viðskiptaumhverfi á Íslandi sem takmarkaði vöxt þeirra.


Framtíðarsýn Hreiðars Más er einföld, Kaupþing og stjórnendur fyrirtækisins munu halda áfram að einbeita sér að því sem þeir kunna best og skilar mestum árangri.