Frá stofnun Mjólkursamsölunnar ehf. 2007 hafa eigendur félagsins sett yfir 7 milljarða af auknu hlutafé í félagið. Rekstrarniðurstaðan síðan þá hefur verið neikvæð um hátt í milljarð en forstjórinn er bjartsýnn á að komið sé jafnvægi í reksturinn eftir miklar fjárfestingar síðustu ára.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í vikunni lögðu eigendur félagsins því til milljarð í lok janúar, eftir að tap félagsins jókst um ríflega 14% á árinu 2018 frá fyrra ári. Þó rekstrarhagnaðurinn hefði verið tæplega hálfur milljarður og hagnaðurinn utan óreglulegra liða jákvæður um nærri 170 milljónir kom 440 milljóna stjórnvaldssekt niður á rekstrinum.

Hlutafjáraukning var greidd nokkurn veginn til helminga af KS og Auðhumlu, en ólíkt 2,3 milljarða hlutafjáraukning fyrir rúmu ári, greiddi Auðhumla nú sínar 490 milljónir með skuldajöfnun en auk 270 milljóna króna skuldajöfnunar KS lagði félagið tæpar 240 milljónir króna í peningum inn í félagið. Í heildina hafa því eigendur félagsins lagt því til 7.145 milljónir króna síðan það var stofnað árið 2007, á verðlagi hvers árs.

„Uppsafnað frá 2007 hefur afkoman, af reglulegri starfsemi, verið neikvæð um 917 milljónir króna. Rekstrarniðurstaðan yfir tímabilið, EBITDA, er minni en fjárfestingarnar, en hún á auðvitað að duga fyrir fjárfestingum, afborgunum lána og hagnaði.“ segir Ari, sem segir skuldajöfnunina koma til með eftirgjöf leigugreiðslna til Auðhumlu annars vegar og hins vegar eftirgjöf vegna kaupa MS á vörum af KS.

„Bæði síðustu árin áður en Mjólkursamsalan ehf. var stofnuð, og síðan, hefur verið gríðarleg hagræðing í mjólkuriðnaðinum, en einnig mikil fjárfestingarþörf. Til dæmis var afurðastöðvunum fækkað úr átján í fimm, meðan starfsmönnum í greininni hefur fækkað um þriðjung. Aðalatriðið er auðvitað hvert ávinningurinn af þessari hagræðingu hefur farið, það er alveg ljóst að hann hefur ekki setið eftir hjá mjólkuriðnaðinum, heldur skilað sér í lægra vöruverði til neytenda og að einhverju marki í hærra hráefnisverði til bænda. Sem dæmi um það fá bændur á hinum Norðurlöndunum til sín um 25% af mjólkurverðinu út úr búð meðan hér eru það 90,48 krónur af um 154 króna lítraverði í Bónus eða tæp 60%.“

Fyrir utan síðasta ár, þá var einungis hagnaður af reglulegri starfsemi hjá MS á árabilinu 2010 til 2014.  Samanlagðar tekjur félagsins fyrir vaxtatekjur og -greiðslur, skatta og afskriftir á tímabilinu námu 9,1 milljarði en félagið hefur á sama tíma fjárfest fyrir 14,2 milljarða.

„Bara endurkaupavirðið á vélum og tækjum í starfsemi félagsins væri 20 milljarðar króna, svo auk húsnæðiskostnaðar hefur félagið farið í gríðarlegar fjárfestingar á þessu tímabili. Til viðbótar erum við með 37 ára gamla mjólkurduftgerð á Selfossi, þá einu á Íslandi, sem er mjög knýjandi að endurnýja, en það er verkefni upp á hátt í tvo milljarða, auk þess sem þörf er á að bæta húsakost þar og á Akureyri,“ segir Ari sem segir upphafleg áform um hlutafjáraukningu hafa verið til að búa félagið undir þessi verkefni.

„Lélegur rekstur undanfarin ár hefur verið að tefja fyrir því, en nú tel ég að við séum á réttri leið í rekstrinum, ef ekkert óvænt gerist. Það er auðvitað mikil óvissa með launaþróun, verðbólgu og önnur efnahagsmál, en ef umhverfið kemur okkur ekki því meira á óvart þá sýnir rekstrarárið 2018 ákveðinn viðsnúning og að það sé að komast betra jafnvægi á reksturinn, og teikn á lofti um að reksturinn 2019 verði viðunandi. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að hafa viðunandi arðsemi eigin fjár af innlendri starfsemi. Að vísu höfum við ekki sett markið eins hátt og er hjá opinberum fyrirtækjum, eins og orkufyrirtækjunum þar sem miðað er við 8%, en við yrðum ánægð með 5-6%, sem er hógværara en flestir aðrir yrðu ánægðir með.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .