„Staða Orkuveitunnar er mjög sterk í dag," segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. „Við erum komin út úr vandanum og yfir í eðlilegan og traustan rekstur. Það sem skiptir máli núna er að halda fókus."

Í stöðuskýrslu aðgerðaráætlunarinnar (Plansins) kemur fram Orkuveitan hafi sparað samtals 20,6 milljarða með því að lækka og fresta fjárfestingum, mest í veitukerfinu.

Spurður hvort þetta hafi verið of bratt svarar Bjarni: „Ef við horfum á afhendingargæði, það er hvenær það varð vatnslaust, hitalaust eða rafmagnslaust á þeim sex árum sem planið varði, þá eru allar tölur toppi. Þannig að þessi sparnaður í viðhaldi og fjárfestingum í veitukerfinu hefur á engan hátt komið niður á þjónustunni. Auðvitað er uppsöfnuð fjárfestingarþörf en við erum núna að ná eðlilegum fjárfestingartakti í veitukerfinu."

Vandi Helliðsheiðarvirkjunar

Hellisheiðarvirkjun er stærsta jarðvarmavirkjun heims með afkastagetu upp á 303 megavött. Árið 2012 kom í ljós að jarðhitasvæði virkjunarinnar væri ekki jafn öflugt og talið var í fyrstu og vinnslugetan fór að dala. Þá var gripið til þess ráðs að tengja Hverahlíðarsvæðið við Hellisheiðarvirkjun en upphaflega átti að reisa sjálfstæða virkjun í Hverahlíð.

„Hvað framleiðslukerfið, Orku náttúrunnar, snertir, þá gerðum við ekki ráð fyrir neinum sparnaði þar í planinu," segir Bjarni. „Það var utan við planið og ástæðan er sú að síðustu vélarnar í Hellisheiðarvirkjun voru ræstar hálfu ári áður en við ýttum planinu úr vör. Á þeim tíma vissum því ekki hver fjárfestingarþörfin var eða vinnslugeta svæðanna. Síðan kom í ljós, sem okkur reyndar grunaði, að gömlu vinnslusvæðin standa ekki undir jafnmikilli vinnslu og í fyrstu var talið. Í upphafi þessa árs lögðust við í gríðarlega greiningarvinnu á Hellisheiðarsvæðinu. Við sáum að eftir að Hellisheiðarvirkjun fékk gufu úr Hverahlíð, en það svæði stendur undir 50 megavatta vinnslu, gátum við farið að hvíla gömlu svæðin að hluta. Þau hafa braggast heldur betur en við þorðum að vona við þessa hvíld.

Ástandið er því heldur skárra en við héldum fyrst en samt sem áður er verulegur kostnaður framundan í borunum og niðurdælingu. Á næstu sex til sjö árum verður hann um 19 milljarðar króna. Í dag er Hellisheiðvirkjun keyrð á 285 megavöttum, það eru meðalafköst virkjunarinnar. Við keyrum hana þannig núna og sjáum ekki annað en við getum haldið því áfram á næstu árum."

Lækkar gjaldskráin?

Auknar tekjur Orkuveitunnar vegna hækkunar gjaldskrár voru 10,6 milljarðar króna á því sex ára tímabili sem aðgerðaráætlunin tók til. Þetta er 2,6 milljörðum umfram áætlun.

Spurður hvort Orkuveitan hyggist lækka gjaldskrána núna þegar staða fyrirtækisins hefur batnað svarar Bjarni: „Við lækkuðum vatnsgjaldið um 11% um síðustu áramót og rafmagnsdreifingu um 5,7% þannig að við erum nú þegar farin að lækka." Spurður hvort gjaldskráin verði lækkuð frekar svarar hann: "Við getum ekki lofað því eins og er en ef reksturinn heldur áfram að styrkjast þá er það ekki útilokað."

Bjarni segir að síðustu ár hafi verið lögð mikil vinna í að bæta stjórnarhætti og menningu í fyrirtækinu. „Ég tel að þetta verði lykillinn að því að viðhalda því góða starfi, sem unnið hefur verið hér síðustu ár."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .