Ef horft er til mannfjöldaþróunar á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að eðlileg fjölgun íbúða ætti að vera í kringum 1.400 á ári.

Síðan 2008 hefur meðalfjölgun íbúða hins vegar verið undir 700 íbúðum á ári að því er fram kemur í grein frá Hagdeild Íbúðarlánasjóðs.

Á tímabilinu síðan hrunið varð, á árunum 2009 til 2016 þá hefur íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 0,8% að jafnaði á meðan íbúðum hefur fjölgað um 1% ár hvert.

Síðustu árin fyrir hrun var byggt talsvert meira en þörfin kallaði á, en síðan tók við samfellt tímabil á árunum 2009 til 2013 þar sem lítið var byggt, þó einhverjum tómum íbúðum frá því fyrir hrun var komið í notkun á tímabilinu.

En enn vantar upp á að hægt sé að uppfylla eðlilega þörf á markaðnum, hvað þá að bæta upp fyrir það litla sem byggt var á árunum eftir hrun segir í greininni.

„Næstu ár þarf því að byggja talsvert meira en 1.400 íbúðir á ári til þess að ná jafnvægi á markaðinum," kemur fram í greininni .

„Það er mat Íbúðalánasjóðs að uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sé á bilinu 2 – 3.000 íbúðir umfram hina eðlilegu ársfjölgun hið minnsta.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um telur Þjóðskrá hins vegar að það skorti um 8.000 íbúðir á fasteignamarkaðinn, sem er meira en það sem Arion banki hefur sagt að vanti.