Samtals er framkvæmdaþörf í vegakerfinu og uppsöfnuð viðhaldsþörf um 225 milljarðar króna en þetta kemur fram í í nýju minnisblaði sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi þann 23. febrúar.

Þannig er talið að framkvæmdir á Vestfjörðum í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, jarðgangatenging Seyðisfjarðar, endurbætur á Hringvegi og útrýming einbreiðra brúa kosti samtals um 100 milljarða króna. Auk þess er talið að tvöföldun stofnleiða til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes kosti um 60 milljarða króna. Ennfremur sé uppsöfnuð viðhaldsþörf samtals um 65 milljarðar króna.

Segir í minnisblaðinu að fjárveitingar til vegamála hafi undanfarin ár verið langt undir viðhalds- og framkvæmdaþörfum. Á sama tíma hafi akstur á vegum aukist verulega, sem og kröfur samfélagsins um greiðar og öruggar samgöngur allt árið. Vaxandi ferðaþjónusta sé stór þáttur í þessari þróun en akstur jókst um allt að 11% á síðasta ári.

Þá segir að á undanförnum áratug hafi fjármunum verið forgangsraðað til viðhalds og vetrarþjónustu á kostnað framkvæmda. Engu að síður er uppsöfnuð viðhaldsþörf 65 milljarðar líkt og áður sagði. Að öðru óbreyttu verður því ekki betur séð en að fjárveitingar til málaflokksins hafi ekki dugað fyrir reglubundnu viðhaldi.

Einnig er þjónustuþörf vegakerfisins talin fara vaxtandi. Kostnaður við árlega þjónustu, að almennri þjónustu meðtalinni, er samtals metin á um 5 milljarða króna. Sífellt meiri kröfur eru um vetrarþjónustu, mest vegna ört vaxandi ferðaþjónustu allt árið. Undir þjónustu falla einnig vegamerkingar, yfirborðsmálun, stikun, skilti, lýsing, öryggismál svo sem uppsetning vegriða o.fl. Þá er upplýsingamiðlun um veður og færð vaxandi. Samdráttur í fjárveitingum til þjónustu hefur bitnað á almennri þjónustu en leitast er við að hlífa vetrarþjónustu.