Í lok síðasta mánaðar voru MP banki og Straumur fjárfestingabanki formlega sameinaðir. Fyrirtækin tvö starfa nú undir kennitölu MP banka og verða höfuðstöðvar sameinaðs banka í húsnæði Straums við Borgartún. Stjórnir MP banka og Straums náðu saman um samrunann í febrúar síðastliðnum og var hann samþykktur bæði af hluthöfum fyrirtækjanna og Samkeppniseftirlitinu í síðasta mánuði. Frá því að tilkynnt var um sameiningaviðræðurnar hafa nokkrir starfsmenn Straums sagt starfi sínu lausu en á meðal þeirra er Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, sem lét af störfum 18. júní síðastliðinn. Í upphafi stóð til að hann myndi leiða sameinaðan banka ásamt Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra MP banka, en nú liggur fyrir að forstjóri MP Straums verður Sigurður Atli. Hann hefur leitt MP banka frá árinu 2011 og lítur björtum augum á framtíð MP Straums.

Þegar sameiningin gekk í gegn þá sögðuð þið upp 12 starfsmönnum. Mun koma til frekari uppsagna á næstunni?

„Í samstæðu MP banka og Straums hefur fækkað um rétt rúmlega 20% frá áramótum og eru stöðugildi í dag rétt rúmlega 85,“ segir Sigurður. „Starfslokum í tengslum við sameininguna er lokið, þannig að það er ekki frekari breytinga að vænta. En auðvitað eins og í öllum fyrirtækjarekstri þá eru svona mál alltaf til skoðunar, hvort sem það sé upp á við eða niður á við. Í tengslum við sameininguna er þessu ferli lokið.“

Í aðdraganda sameiningarinnar tók maður eftir því að margir starfsmenn sögðu upp Straums megin. Getur þú ímyndað þér af hverju það er?

„Nú hef ég ekki hugmynd um það og hef enga aðkomu að því. Eflaust eru ýmsar og fjölþættar ástæður fyrir því að fólk velur að breyta til og skipta um starfsvettvang.“

Er þetta eitthvað sem þú bjóst við í upphafi, þegar sameiningarferlið fór af stað?

„Já. Reynslan segir okkur að sameiningar geta leitt til þess að fólk skipti um starfsvettvang. Það er auðvitað atriði í sameiningum að þær skapa óvissu fyrir starfsfólk og geta ýtt undir að það færi sig til. Ég ætla hins vegar ekkert að reyna að geta í það hvers vegna starfsfólk hætti í Straumi einhvern tímann síðastliðinn vetur, hvort það hafi haft eitthvað með þessa sameiningu að gera. Ég hef ekki hugmynd um það og ætla ekkert að velta mér upp úr því núna. Við erum með fullt af frábæru fólki og það er erfitt að ímynda mér það að það sé hægt að fá betra fólk í neinn þann stól sem er í bankanum í dag.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .