Northern Travel Holding (NTH) er nú að fullu í eigu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Fons keypti 35% hlut af Stoðum, sem hefur nú alfarið slitið sig frá flug- og ferðaþjónusturekstri.

Salan á NTHhlutnum markar ákveðin þáttaskil í sögu Stoða, en félagið hefur fjárfest og átt talsvert í flugrekstri fram að þessu. Stoðir hafa áður átt í félögunum Finnair, American Airlines, Easy Jet og Icelandair. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fengu Stoðir hlut í verslanakeðjunni Iceland fyrir hlut sinn í NTH. Stoðir, áður FL Group, hafa unnið að því síðustu mánuði að meitla til eignasafn sitt og skerpa á fjárfestingastefnu, en félagið eignaðist 39% hlut í Baugi 4. júlí síðastliðinn.

Hluturinn í Iceland fellur því afar vel að starfsemi Baugs og því er óhætt að áætla að hlut Stoða í Iceland verði að endingu rennt inn í Baug. Þó er mikilvægt að halda því til haga að Stoðir eignuðust ekki allan hlut Fons í Iceland.

Greint var frá því að innlendir og erlendir fjárfestar hefðu keypt hlutinn, en viðskiptin skiluðu Fons alls 77 milljarða söluhagnaði, þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort Fons hafi þurft að greiða skuldir með hluta eða öllu því fé.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .