Flugfélag Íslands var rekið með tapi frá stofnun félagsins 1997 en náði loks flugi sínu árið 2001. Síðan hefur félagið gengið vel, að sögn Árna Gunnarssonar framkvæmdastjóra sem hefur stýrt félaginu síðan 2005. Hann segir að frá 1999 hafi veltan tvöfaldast og farið úr 2 milljörðum í 4 milljarða króna og útlitið sé bjart. Hann er þó svartsýnn á framhaldið ef ráðist verður í að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Hafin er endurnýjun á flugflota félagsins með kaupum á tveim Bombardier Q100 (Dash 8), 37 til 39 sæta skrúfuþotum sem þykja mjög hagkvæmar í rekstri. Árni segir að félagið horfi nú til þess að skipta út Fokkervélunum á næstu árum og fá Bombardier Q400 vélar í staðinn. Þær taka 68 til 78 farþega. Auðvelt er að breyta þessum vélum í fragtvélar með mjög stuttum fyrirvara.

"Við höfum áhuga á að skoða okkar möguleika almennt á fragtmarkaðnum hér innanlands sem færst hefur frá skipaflutningum inn á þjóðvegina." "Við erum því að velta fyrir okkur möguleikum á að nota eina vél eingöngu í fragtflutninga."

Ítarlegt viðtal er við Árna Gunnarsson í Viðskiptablaðinu í dag.