*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 23. nóvember 2021 10:58

Upp­stokkun hjá Icelandair

Icelandair skiptir sölu og þjónustu í tvö svið og ræður Tómas Ingason sem framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair gerir breytingar á skipulagi félagsins með því að skipta sölu og þjónustu í tvö svið og efla stafrænt þróunarsvið félagsins. Þá hefur félagið ráðið Tómas Ingason sem framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu (e. Chief Revenue Officer). Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Sölu- og þjónustusviði verður skipt upp í annars vegar  þjónustu- og markaðssvið og hins vegar leiðakerfis- og sölusvið. Fyrrnefnda sviðið mun leggja áherslu á upplifun viðskiptavina ásamt því að styrkja Icelandair vörumerkið en hið síðarnefnda sameina allar tekjudrifnar einingar félagsins, þ.e. stjórnun leiðakerfis, tekjustýringu og sölu.

Þá ætlar Icelandair að efla svið stafrænnar þróunar og ráða framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar (e. Chief Digital Officer). „Þetta svið mun styðja við allar einingar félagsins í þeirri vegferð að stuðla að einföldu og ánægjulegu ferðalagi fyrir viðskiptavini Icelandair og leggja grunninn að bættri nýtingu gagna við ákvarðanatöku innan félagsins," segir í tilkynningu frá Icelandair.

Einnig á að styrkja sjálfbærnisvið Icelandair með því að staðsetja það á skrifstofu forstjóra ásamt stefnumótun félagsins

Tómas Ingason, nýr framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu, hefur verið framkvæmdalstjóri viðskiptaþróunar og stafrænnar umbreytingar síðan hann kom aftur til liðs við Icelandair á árinu 2019. Áður var Tómas framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs WOW air á árunum 2018-2019 og forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 til 2018. Þá var hann framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá WOW air á árinu 2014. Fyrir þann tíma var hann ráðgjafi hjá Bain & Company í Kaupmannahöfn og starfaði sem forstöðumaður tekjustýringar og verðlagningar hjá Icelandair til margra ára. Tómas er með MBA gráðu frá MIT Sloan School of Management í Boston, MSc. gráðu í verkfræði með áherslu á aðfangakeðjur og flugfélög sem og BSc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Icelandair segir ráðningarferli framkvæmdastjóra þjónustu og markaðsmála og framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar hefjist nú þegar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Við búum við breytta heimsmynd vegna áhrifa faraldursins og stöndum frammi fyrir nauðsyn þess að við leggjumst öll á eitt til að tryggja sjálfbæra framtíð. Með skýrri framtíðarsýn og stefnu Icelandair sem studd er með nýju skipulagi félagsins, erum við vel í stakk búin til að takast á við þennan nýja veruleika. Við ætlum okkur að ná árangri til framtíðar með því að tryggja sjálfbæran vöxt félagsins, halda áfram að reka öflugt og sveigjanlegt leiðakerfi, stuðla að framúrskarandi rekstri á öllum sviðum og halda áfram í stafrænni umbreytingu. Undirstaða þessa er reynslumikið og öflugt starfsfólk og sterk fyrirtækjamenning þar sem upplifun viðskiptavinarins er kjarninn í öllu okkar starfi sem og áherslan á framlag okkar til íslensks samfélags, efnahagslífs og umhverfis.”

Stikkorð: Icelandair