VÍS stefnir á nokkuð viðamiklar breytingar á eignasafni og fjármagnsskipan félagsins á næstu þremur til fimm árum. Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir að með þessu vilji félagið færast nær því sem þekkist meðal tryggingarfélaga á Norðurlöndunum. Meðal þeirra breytinga sem VÍS stefnir að er að lækka eiginfjárhlutfall félagsins sem í dag er 32% niður í 28% til 25% á næstu þremur til fimm árum.

Þá er einnig stefnt að því að draga úr vægi áhættumeiri eigna og hækka þannig hlutfall áhættuminni eigna á borð við skuldabréf. „Frá því að ég hóf störf höfum við verið að velta fyrir okkur fjármagnsskipan félagsins,“ segir Helgi sem tók við sem forstjóri VÍS síðasta sumar.

„Það sem við höfum séð er að það er ákveðinn munur á fjármagnsskipan íslensku tryggingafélaganna og fjármagnsskipan tryggingafélaga á Norðurlöndum. Munurinn felst helst í því að eiginfjárhlutfall íslenskra tryggingafélaga er töluvert hærra með mikla áherslu á fjárfestingar í hlutabréfum. Norrænu félögin eru hins vegar almennt með minna eigið fé, minni áhættu í sínum fjárfestingum og hærra gjaldþolshlutfall. Það er þetta módel sem við erum að horfa til.“

Helgi leggur hins vegar áherslu á að hvert skref í þeirri vegferð sem félagið hafi nú til skoðunar yrði háð ákveðnum skilyrðum um samsett hlutfall, gjaldþolshlutfall, samþykki hluthafa og eftir atvikum Fjármálaeftirlitsins. VÍS hyggst til að mynda boða til hluthafafundar fyrir lok júní þar sem hugmyndirnar verða lagðar fram fyrir hluthafa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .