Íslandsstofa mun á næstunni flytja úr Borgartúni 35, sem er betur þekkt sem Hús atvinnulífsins. Íslandsstofa hefur leigt fyrstu hæð hússins en leigusamningurinn er nú runninn út og leit hafin að nýju húsnæði. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu aðildarfélög innan Samtaka atvinnulífsins, sem eru nokkur í húsnæðinu, í kjölfarið sameina ýmiss konar skrifstofurekstur, s.s. bókhald, símsvörun og fleira.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá síðastliðið haust er í gangi vinna þar sem stefnt er að uppstokkun innan SA, meðal annars með sameiningu ýmissa aðildarfélaga. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gengur sú vinna hægt, m.a. vegna nýafstaðinnar kjaraviðræðu við ASÍ, en einnig vegna áhugaleysis og eftir tilvikum andstöðu ýmissa aðildarfélaga. Ekki er mikilla tíðinda að vænta af þeim málum á næstunni.